148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, býður okkur upp á hártoganir hér. Ég fagna samtalinu, en þetta andsvar hv. þingmanns var ekkert annað en hártogun á því sem ég hef sagt bæði um þessa fjármálaáætlun og fleiri fjármálaáætlanir.

Við í Samfylkingunni tölum ekki fyrir skattalækkunum á þessum tímapunkti, en það er auðvitað fráleitt að halda því fram að þar með séum við á móti samtali um skattkerfisbreytingar við aðila vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfinguna. Það er fráleitt að halda því fram. En núna á þessum tímapunkti eigum við ekki að segja að það verði til að lækka tekjur ríkissjóðs. Við getum breytt skattþrepunum, gert betur við barnafjölskyldur, (Forseti hringir.) aukið jöfnuð og nýtt skattkerfið til þess. En við eigum ekki á þessum tímapunkti að lækka tekjur ríkissjóðs. Þegar við förum í niðursveifluna eigum við ekki að láta, eins og mér heyrist hv. þingmaður vilja, velferðarkerfið taka sveifluna heldur á það að vera afgangurinn á ríkissjóði sem á að taka hana.