148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi skoðað ýmsar hliðar þessa máls, m.a. er ágætt svar frá fjármála- og efnahagsráðherra um virðisaukaskattsstofninn í gistingu. Ég bað hann um að skipta því eftir höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni vegna þess að ég vildi draga fram að þarna væri einhver munur. En það er enginn munur. Þetta er sama talan. Ég spyr hv. þingmann: Er hann meðvitaður um það? (Gripið fram í.) Er ekki best að hann kíki á þetta svar og skoði það?

En mig langar til að svara fyrri spurningunni um hvenær sé rétti tíminn til að lækka skatta. Þegar kreppir að á ríkið að lækka skatta og auka útgjöld til að reyna að toga hlutina aftur á réttan stað. Þegar kreppan var fórum við algerlega á hausinn og við gátum ekki gert það því að við vorum svo skuldsett. En við eigum ekki að lækka skatta (Forseti hringir.) í góðærinu. Við eigum að læra af því. Þjóð sem fór næstum því á hausinn á að safna í sjóði þegar vel stendur á og lækka skatta og auka útgjöld (Forseti hringir.) á þeim tíma þegar við erum á vondum stað í hagsveiflunni.