148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lækkandi persónuafsláttur og flatur skattur er það sama og hækkandi tekjuskattur og flatur persónuafsláttur, bara til þess að hafa það á hreinu. Flatur persónuafsláttur með hækkandi tekjuskatti étur smám saman af persónuafslættinum og öfugt. Þannig að mér finnst rosalega fallegt að segja þetta svona, að við förum í flatan tekjuskatt og lækkandi persónuafslátt eins og það sé öðruvísi en það sem við erum með núna. Það getur meira að segja orðið pínulítið flóknara þar sem fólk þyrfti að endurgreiða persónuafslátt ef það hefði borgað of mikið, ef það væri t.d. fyrri hluta árs í námi og seinni hluta í starfi og með það miklar tekjur að það fengi ekki persónuafslátt og skuldaði hann þegar heildartekjur ársins eru annars vegar.

Mér þætti líka áhugavert að heyra, með tilliti til fjármálastefnunnar og þeirrar skattstefnu sem þar er sett fram, hvort einhver möguleiki sé á að þetta breytist á þessu tímabili fjármálastefnunnar.