148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að ef innleiða á hér háan persónuafslátt, sem fer lækkandi eftir því sem tekjur hækka, en vera jafnframt með flata prósentu þá verðum við í raun með jafn mörg skattþrep og skattgreiðendur eru margir. En þau eru miklu fleiri og miklu flóknari þegar verið er með fjölþrepakerfi sem síðan er bundið tekjutengdum bótum, eins og barnabótum, vaxtabótum, húsaleigustuðningi o.s.frv., en þetta. Ég er alveg sannfærður um að ef við ætlum að byggja upp og útbúa tekjuskattskerfi sem er heilbrigt, tekjuskattskerfi sem hvetur fólk en letur ekki, refsar fólki ekki (Forseti hringir.) heldur ýtir undir það þegar það bætir sinn hag þá er það (Forseti hringir.) þess virði. Ég hef sannfærst um að þetta sé leiðin, það tekur einhver ár.