148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum ekki undirstrikað það nægjanlega hversu mikilvægt það er að við höfum réttu tækin og tólin og að þau spálíkön sem við erum að nota séu eins góð og hægt er. En það sem skiptir líka máli í mínum huga er að við séum ekki að styðjast við sama líkanið út um allan bæ, að við séum með mjög ólík spálíkön þannig að við fáum dýnamíska umræðu um efnahagslífið og horfur í efnahagsmálum. Eins og hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, þekkir betur en flestir aðrir þá greinir hagfræðinga á um eiginlega allt. Sumir eru að vísu sannfærðir um að þetta séu raunvísindi sem við vitum báðir að er rangt, en látum það nú (Forseti hringir.) liggja milli hluta.

Ég held að það skipti miklu máli og það eigi að (Forseti hringir.) leggja mikla áherslu á þetta. En við eigum líka að sameinast um að koma upp hagdeild, sjálfstæðri, hér á nefndasviði Alþingis.