148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er spurningin mín í raun og veru mjög einföld: Er þau markmið og þá mælikvarða að finna í fjármálaáætlun? Segir fjármálaáætlun okkur hvað við fáum fyrir þessa 54 milljarða sem stefna ríkisstjórnarinnar bætir við þau skuldbundnu útgjöld sem gefin eru samkvæmt grunndæminu? Ég sé það ekki. Ef til vill getur hv. þingmaður frætt mig um hvort svo sé. Ég sé það á nokkrum stöðum, í málefnasviði skatta, hjá umboðsmanni Alþingis. En að langmestu leyti er bara sagt: Viðmið verða skilgreind. Ekki vitað. Staða ókunn, o.s.frv. Þetta kemur frá fólkinu sem segir á sama tíma: Við verðum að fá að vita hvað við fáum fyrir peninginn. Þess vegna t.d. vil ég vísa fjármálaáætluninni aftur til ríkisstjórnarinnar til að segja: Látið okkur fá betra plagg svo við vitum hvað þið viljið fá fyrir peninginn.