148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var prýðileg ræða hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni og það kemur hvorki honum né mér né öðrum í þessum sal á óvart að við erum meira sammála en við erum ósammála. Það er þó ýmislegt sem ég held að sé nauðsynlegt að fá aðeins gleggri mynd af. Í fyrsta lagi hef ég ekki áttað mig í einu eða neinu þegar kemur að skattstefnu Miðflokksins. Í hverju er hún fólgin? Hvers konar skattkerfi vill Miðflokkurinn viðhafa? Hvað með tekjuskatt einstaklinga? Þá er ljóst að hv. þingmaður a.m.k. er talsmaður þess að lækka tryggingagjaldið. Ég er það líka. En á móti kemur hins vegar að við erum að mæta kröfum um það að lengja t.d. fæðingarorlof, hækka fæðingarorlofsgreiðslur. Við horfum fram á að það verði aukin útgjöld í almannatryggingakerfið. Það er akkúrat það sem ætlast er til að tryggingagjaldið fjármagni að hluta til en ekki öllu leyti.

Hv. þingmaður vakti einnig athygli á hækkun á kolefnisgjaldi og ég deili áhyggjum hans af því. Ég er ekki talsmaður þess að hækka kolefnisgjaldið frekar en orðið er og í rauninni hefði ekki átt að hækka það. En látum það liggja milli hluta. Hv. þingmaður heldur því fram að gjöld af umferðinni séu ósanngjörn, þau séu of há. Þá spyr ég: Hvernig eigum að við að fjármagna vegina? Í fjármálaáætluninni 2019–2023 er áætlað að það fari u.þ.b. 125 milljarðar í samgöngu- og fjarskiptamál í fjárfestingar. Að meðtöldu þessu ári eru þetta upp undir 150 milljarðar. Er ekki bara skynsamlegt og réttlæti í því fólgið að þeir sem nota greiði, í þessu tilfelli fyrir mannvirki í samgöngum? Þar á meðal (Forseti hringir.) við, þessir gömlu skálkar sem enn þá keyra um á okkar einkabílum, við verðum bara að borga fyrir það. Er ekki hv. þingmaður til í það?