148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Svona rétt í byrjun vil ég ræða það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi umræðu um skógræktina og málefnasviðin. Þetta eru 34 málefnasvið. Búinn er til rammi í ríkisfjármálaáætlun, í framhaldinu tökum við hundrað málefnaflokka inn í fjárlögin. Þá fáum við einstaka liði eins og skógrækt og landgræðslu og annað inn í þennan ramma sem er málefnasvið 34. Auðvitað er skemmtilegra að fá alla umræðuna í einu, en þetta er eitthvað sem við getum beðið spennt eftir fyrir haustið, að fá nákvæmari útlistanir á því hvernig þessum römmum innan málefnasviðanna er varið í framhaldinu. (Gripið fram í.) — Þingið ræður, það er fjárveitingavaldið. En fjárlaganefnd og síðan þingið tekur þessa umræðu í fjárlögunum varðandi málefnaflokkana. Það er náttúrlega hugmyndafræðin á bak við hin opinberu fjármál að raða hlutunum upp með þessum hætti.

Mig minnir að flutningsstyrkurinn á landsbyggðinni, varðandi olíugjaldið, sem var settur á fyrir einhverjum árum sé 380 milljónir, til að jafna út flutningskostnað. Mig minnir að það séu 380 síðast þegar ég skoðaði þetta. Ég varð ekki vitni að umræðu hér fyrr í dag um þetta þar sem hv. þingmaður vitnaði í fjárlaganefndarmann varðandi kolefnisgjöldin. Persónulega hef ég haft áhuga á því að þetta væri kostnaðarmetið, að við fengjum hreint og beint upp á borðið hvað þetta þýðir fyrir landsbyggðina kolefnisgjöldin, flutningskostnað o.fl. Ég er til dæmis ekki með á hreinu meðalakstur eða annað, (Forseti hringir.) hvernig hann fellur til. Ég hefði áhuga á að vita það í þessu samhengi, hvernig þau mál standa.