148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það var ekki beint spurning í því, en góðar vangaveltur. Ég held að það sé einmitt áhyggjuefni með hvaða hætti mál eins og kolefnisgjaldið koma hér inn. Við sjáum það í fjárlögunum á undan þeim sem samþykkt voru í desember — sem voru lögð fram en féllu auðvitað eftir að sú ríkisstjórn fór frá — að hækka átti þau um 100%, það endar í 50%. Engin greining virðist liggja þar að baki, hvar kostnaðurinn leggst, hverju þetta skilar og hver áhrifin verða. Þetta er það sem ég kalla punt inn í umræðuna. Undir hatti grænna skatta, af því að það þykir voðalega fínt, er búið til eitthvað sem kallað er kolefnisgjald sem mönnum þykir svo ekkert tiltökumál að hækka um 100% á milli ára, endar síðan í 50%, og 10% lofað í viðbót. Þarna er sáralítil greining að baki. Ég hef a.m.k. ekki séð neina greiningu á því hver áhrifin gætu orðið. Síðan koma menn í næsta skrefi og segja: Við verðum að fara í mótvægisaðgerðir til að þessi kostnaður fari ekki út í verðlagið. Menn ættu bara að sleppa því að leggja á svona delluskatta, hvað þá að hækka þá um 50%. Það væri miklu einfaldara.

En ég er sammála öllu því sem kom fram í máli hv. þingmanns varðandi það að þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir. Því fyrr, því betra.