148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mitt litla hjarta að hv. þingmaður sé sammála mér um þessa greiningu mína. Ég held að það væri mjög áhugavert að fá það á hreint hvað svona hlutir þýða. Almennt finnst mér við ekki gera nægilega mikið af því, þegar við leggjum á íþyngjandi gjöld og skatta, að skoða nákvæmlega hvernig það leggst á fólkið í landinu eða ákveðin samfélög. Það er mjög mismunandi hvernig einstakir skattar leggjast. Ég er algjörlega á því að þetta sé dæmi sem mjög áhugavert væri að skoða í byggðalegu tilliti og með ýmsum hætti.

Varðandi umræður um fjárfestingar í samgöngum þá eru þetta töluverðar hækkanir miðað við það sem við höfum séð undanfarið. Þetta eru 124 þús. milljónir á tíma þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Það er töluverð breyting frá því sem við höfum séð. Þetta eru þá fjárfestingar sem fara í vegi, hafnir, flugvelli og fjarskipti. (Forseti hringir.) Ég vil ekki gera lítið úr því en auðvitað vil ég alltaf meira í samgöngumál.