148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka ánægju mína með afstöðu þingmannsins hvað skattamál varðar, hann myndi passa mjög vel inn í þingflokk Miðflokksins miðað við þá afstöðu sem komið hefur fram hjá honum í kvöld, hann er velkominn í kaffi hvenær sem er.

Auðvitað hljómar þessi tala, 125 milljarðar yfir áætlunartímabilið, sem há, en ef við setjum hana í samhengi þá er þessi uppsafnaða tala yfir fimm ára tímabil 50% af eins árs útgjöldum til heilbrigðismála árið 2023, eiginlega akkúrat 50%. Það er auðvitað fullt af peningum, en svo fjarri því að koma okkur á þann stað sem við viljum fara á hvað vegakerfið varðar, eða öllu heldur á þann stað sem við verðum að fara á. Það á bæði við um vegina, hafnirnar og ekki síst flugvellina og ég veit að hv. þingmaður ber hag þeirra fyrir brjósti. Þó að talan sé há þegar hún er lögð saman yfir fimm ára tímabil þá verður hún því miður ekki há í raunheimum.