148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þetta. Þetta var fín viðbót, þetta var atriði sem ég hreinlega gleymdi í andsvari mínu áðan við hv. þm. Óla Björn Kárason. Er eitthvert vit í því að þeir sem keyra um á rafmagnsbíl, fá niðurfelld innflutningsgjöld og stinga bílnum síðan í samband við heimilisinnstunguna, borgi ekki fyrir notkun á vegakerfinu nema í sáralitlum mæli? Auðvitað er það ekki svo og þetta er hluti af þeirri heildarendurskoðun sem við verðum að fara í.

Við verðum að losna út úr þessari stöðu. Hlutfall bíla sem ganga fyrir rafmagni, eða grænum orkugjöfum eins og þeir eru kallaðir, fer hækkandi en hlutföllin eru samt enn ofboðslega skökk hvað það varðar að tekjur ríkisins af ökutækjum og umferð eru rúmlega 100% hærri en það sem varið er til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Á árinu 2016 komu 46 milljarðar inn en 21 milljarði var varið til uppbyggingar. Það eru tölurnar eins og þær liggja fyrir ef við tökum virðisaukann út úr myndinni.

Ég held að við þurfum að finna leið til að taka upp eðlilega blöndu af veggjöldum, skynsamlega útfærða, þar sem jafnræðis er gætt og að allir séu að leggja sitt í púkkið. En það má ekki vera hrein viðbót ofan á þann mikla kostnað sem ökumenn bera í dag. Það væri auðvitað alveg galin staða ef veggjöld kæmu sem hrein viðbót ofan á þessar tölur, 46 milljarða árið 2016. Þá fyrst væri orðið dýrt að nota vegakerfið. Þangað vil ég ekki fara. En ég vil gjarnan sjá tekjur koma inn með einhverri útfærslu af veggjaldaleið sem gerir okkur kleift að fjárfesta mun hraðar en núverandi (Forseti hringir.) fyrirkomulag gerir ráð fyrir. En ég vil þá jafnframt að menn sjái nokkurn aumur á ökumönnum landsins og þeim sem þurfa að nota vegakerfið.