148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er ákveðið verkefni að vera hér síðust á ræðuskrá og ætla að finna eitthvað nýtt og áhugavert í umræðu um fjármálaáætlun. Ég mun gera mitt besta. Ég ætla að byrja á því að vitna í óbeint hæstv. forsætisráðherra Katrínu jakobsdóttur sem benti á, í umræðum um fjármálaáætlun 2018–2022, að yfirstandandi hagvaxtarskeið væri orðið það lengsta í lýðveldissögunni og óvarlegt að gefa sér að það myndi standa út viðmiðunartíma fjármálaáætlunar. Þetta var líklega rétt hjá hæstv. forsætisráðherra fyrir ári en er enn frekar rétt núna. Þrátt fyrir þetta þá byggir sú fjármálaáætlun sem við ræðum núna akkúrat á þessu, á því að hagvaxtarskeiðið haldi áfram 2020 til 2023 hið minnsta. Þetta þýðir einfaldlega að ef og þegar kemur bakslag í seglin er grundvöllur áætlunarinnar brostinn. Það er bent á þetta víða í umsögnum, t.d. hjá fjármálaráði, sem bendir á að sá sveigjanleiki sem boðaður hafi verið í fyrri fjármálaáætlun væri nú að mestu leyti horfinn, lítið megi þó út af bregða ef ekki verði gripið til aðgerða sem auki tekjur ríkissjóðs, en slík áform hafa ekki verið höfð uppi enn af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er því eðlilegt að spyrja: Þegar bakslagið kemur hvað verður þá látið mæta afgangi? Hvar ætla stjórnvöld að skera niður? Eins og áætlun ríkisstjórnarinnar er sett fram núna þá er ekki svigrúm til annars. Spurningin er: Verður skorið niður í innviðafjárfestingum þar sem uppsöfnuð viðhaldsþörf er áætluð enn hærri en framlögin eru samkvæmt áætluninni? Verður skorið niður í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almannatryggingakerfinu? Þannig mætti lengi spyrja. Þessum spurningum verður náttúrlega ekki svarað hér og nú, það er svo sem ekki ætlunin.

Mig langar aðeins til að árétta markmið laga um opinber fjármál sem eru að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála, m.a. með heildstæðri stefnumörkun og vönduðum undirbúningi áætlana. Það er eitt sem við getum verið alveg viss um, það er að óskir um aukin útgjöld og aukna þjónustu munu vaxa hraðar en tekjur ríkissjóðs munu gera nema við dettum aftur í gullpott líkt og ferðaþjónustan reyndist okkur fyrir nokkrum árum, en það er náttúrlega óvarlegt að treysta á slíkt og jafnvel til lengri tíma litið ekkert sérlega eftirsóknarvert. Það hlýtur einfaldlega, til viðbótar við að finna nýja tekjustofna, að vera betra til lengri tíma litið að stefna að því að nýta fjármagnið betur í sömu eða betri þjónustu og skilja jafnvel, ef svo gefur, pening eftir í vösum skattgreiðenda, í vösum almennings og fyrirtækja.

Ef við lítum aðeins á helstu útgjaldaliði okkar sem eru t.d. heilbrigðisþjónustan þá vitum við að sú tækniþróun sem við sjáum fram á þar eykur vissulega gæði þjónustunnar, bætir líðan, heilsu og líf þeirra sem nýta hana, en hún kostar einfaldlega meira, a.m.k. þegar litið er til beinna heilbrigðisútgjalda. Ávinningurinn kemur einhvers staðar annars staðar, en þetta kostar. Þetta er útgjaldaaukning. Við sjáum líka fram á ófyrirséðar tæknibreytingar sem munu kalla á viðbrögð af hálfu menntakerfisins okkar. Það mun kosta, viðbrögðin þar munu kosta. Það muna verða okkur mjög dýrt að halda áfram á sömu braut að mennta fólk til að uppfylla þarfir fortíðarinnar. Við verðum að fara að bregðast við þar en það kostar.

Við leggjum aukna áherslu á velferðarmál, það er vel, en það kostar. Staðreyndin er sú að eina raunhæfa leiðin til að efla íslenskt velferðarsamfélag er að nýta fjármagnið betur. Það er bara þannig sem við getum haft raunhæfar væntingar um að tilraunir og viðleitni til að mæta kröfum um aukna þjónustu á einu sviði verði ekki eingöngu með því að draga saman seglin á öðru sviði. Við þurfum einfaldlega að fara betur með peninginn til þess að geta mætt kröfum um aukna þjónustu með öðrum hætti en samdrætti einhvers staðar.

Þetta eru í grundvallaratriðum áherslur sem ég sakna úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára, vegna þess að þetta er stefnuplagg um opinber fjármál og slíkt stefnuplagg getur ekki bara snúist um aukin útgjöld. Það hlýtur að þurfa að snúast um hina hliðina og síðan í grunninn um aukna og betri þjónustu, ekki bara með auknum útgjöldum heldur í betri og skilvirkari nýtingu fjármagns. Það er það sem ég kalla eftir og myndi hafa viljað sjá meiri áherslu á. Ég vænti þess að sjá þess stað af því að ég átta mig á því að við erum þrátt fyrir allt enn á upphafsmetrunum í þessum vinnubrögðum. Ég kalla eftir því að þessi áhersla verði ríkari í næstu umferð og okkur verði tamt að hugsa um þessa hluti, ekki bara telja aukin útgjöld eða mæla velferð í auknum útgjöldum, heldur hvernig við förum með þessa peninga. Vegna þess að peningarnir í vösunum eru ekki óþrjótandi.