148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er smátt og smátt að teiknast upp skýrari mynd af erindi þessarar ríkisstjórnar. Í síðustu viku birtist hún raunar kristaltær þegar lagt var frumvarp um stórfellda lækkun á veiðigjöldum þar sem stórútgerðir, sem eru vel aflögufærar, áttu að fá bróðurpartinn. Sem betur fer tókst stjórnarandstöðunni að hrinda þeim áformum með samstilltu átaki. Talað var jafnvel um að útgerðirnar væru komnar að þolmörkum, sem er þvílíkt virðingarleysi við allt það fólk sem sannarlega á í erfiðleikum.

Ég man satt að segja ekki eftir því að stjórnarliðar, sem jafnvel sögðust bera hag þessa fólks fyrir brjósti fyrir kosningar, hafi notað þolmörk síðustu vikurnar til þess að ræða stöðu aldraðra, öryrkja, námsmanna eða efnalítils barnafólks. Þess í stað hefur umræðunni um þá hópa verið drepið á dreif með yfirlýsingum um hvernig staðan er almennt hjá fólki í landinu. En þótt meðallífskjör hafi batnað mikið lifum við ekki og hrærumst í vísitölum eða meðaltölum. Hver og einn sem getur ekki framfleytt sér skiptir verulega miklu máli.

Mikill fjöldi venjulegs launafólks, aldraðra og öryrkja, nær ekki endum saman og þarf jafnvel að neita sér um sjálfsagða hluti eins og læknisþjónustu. Eignastaða ungs fólks er líka slæm og margar barnafjölskyldur hrekjast um á dýrum og ótryggum leigumarkaði. Misskipting hér á landi er auk þess orðin mikil þótt hún sé eflaust meiri annars staðar í heiminum. En ríkasta 1% landsmanna jók hreina eign sína um 53 milljarða kr. árið 2016. Þessi hópur safnar áfram langstærstum hluta af öllum nýjum auð.

Eftir loforðaflaum í síðustu kosningum biðu því mjög margir spenntir eftir því mikilvæga plaggi sem heitir stjórnarsáttmáli, því að hann sýnir forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar svart á hvítu. Síðan kemur fjármálaáætlunin og þar er þetta slegið í gadda. Ég verð að viðurkenna að ég leyfði mér að vona að áhrif Vinstri grænna yrðu til þess að framlög myndu nægja til að takast betur á við bráðavanda ýmissa innviða, grípa til varna fyrir lág- og millitekjufólk og til þess að milda hömlulausa hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að skattamálum. En nú þegar áætlunin liggur fyrir virðast fögur fyrirheit þessa sama flokks um að gera betur vera að engu orðin.

Stjórnarliðar allir eru nú fullkomlega meðsekir þessu plaggi ríkisstjórnarinnar þar sem þeir gerðu ekki eina einustu breytingu á fyrstu drögunum sem rötuðu inn á þingið. Áfram munu barnabætur byrja að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Sú skerðing mun stuðla að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Það á ekki heldur að leysa húsnæðisvandann og húsnæðisstuðningur mun minnka. Háskólarnir eru fjársveltir og framhaldsskólarnir eru komnir að þolmörkum. Hvergi getur maður eiginlega séð þá stórsókn sem boðuð var í menntamálum.

Aldraðir og öryrkjar hafa lengi beðið eftir kjarabótum og enn þurfa þeir hópar að bíða. Fólk í neyð víða um heim er líka látið bíða, en við verjum töluvert lægra hlutfalli af landsframleiðslu til þróunarmála heldur en nágrannalöndin þrátt fyrir að vera 11. ríkasta land í heimi.

Heilbrigðiskerfi okkar er að niðurlotum komið. Framlög til heilbrigðiskerfisins hækka vissulega í fjármálaáætlun og fjármagn til byggingar á nýjum Landspítala er tryggt, þó það nú væri, en hann verður hins vegar ekki byggður á einni nóttu og samkvæmt gögnum og umsögn Landspítalans vantar enn heilmikið upp á, eða 80 milljarða á næstu fjórum til fimm árum.

Herra forseti. Í fjármálaáætlun eru 20–30 milljarðar gefnir eftir og skattalækkanir boðaðar. Þær skattalækkanir munu nýtast best þeim sem mestar hafa tekjurnar, gefa okkur tekjuhæsta fólkinu þrisvar sinnum meira en þeim sem eru á lægstu laununum.

Herra forseti. Það birtist engin framsýni í þessari áætlun. Í henni birtist ekkert annað en (Forseti hringir.) gamaldags hægri stefna en við þurfum núna á félagshyggjustjórn að halda. Það er nauðsynlegt að koma þessari ríkisstjórn frá.