148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðuna hér um ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 sem mér finnst hafa verið býsna fín. Slík áætlun spannar vítt svið efnahagsmála, öll fjármál hins opinbera; sveitarfélög og opinber fyrirtæki þar með talin og öll málefnasvið ríkisfjármála. Margt af því sem fram hefur komið í umræðunni kemur fram í ábendingum fjármálaráðs sem starfar á grundvelli 13. gr. laga um opinber fjármál og mér finnst staðfesta enn og aftur hversu mikilvægu hlutverki ráðið gegnir þegar kemur að umræðu og umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun. Umsögn og ábendingar ráðsins lyfta umræðunni faglega og setja henni, getum við sagt, ákveðinn þráð.

Í framsögu minni þakkaði ég umsagnir annarra fastanefnda sem snúa að þeirra málefnasviðum og svo hv. fjárlaganefnd fyrir samstarfið og mikið vinnuframlag í umfjöllun um málið og undirbúnings- og greiningarvinnu. Samstaðan birtist ekki síst í þeim sameiginlegu ábendingum sem koma fram í álitum meiri hluta og allra minni hluta og ber að þakka 2. varaformanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, þá hugmynd og innlegg allra annarra hv. nefndarmanna í þessa sameiginlegu ábendingar. Einnig gekk hv. þm. Björn Leví Gunnarsson mjög hart eftir grunndæmi sem nýttist mjög vel í greiningarvinnu.

Segja má að samstaða nefndarinnar hafi birst þar í verki og sameiginlegar ábendingar ganga að miklu leyti út á að vera betur í stakk búin til að vanda til verka og fá fyllri mynd af verkefninu og áhrifum þess á hagkerfi og efnahag. En það sem mér finnst hafa staðið upp úr í umræðunni er einkum tvennt. Það er annars vegar umræða um óvissu hagspáa; við erum hér að miða við hagspá sem við verðum að byggja svona áætlun á. Þannig er staðan í dag en það er unnið í því og nefndin fór vel yfir það hvaða úrbætur eru í vinnslu með það mál. Svo er það hitt að mikill útgjaldaauki er í áætluninni, það verður að segjast. Við verðum að gæta að því að ríkisfjármálin og ríkissjóður sé sjálfbær inn í framtíðina. En á sama tíma er ákveðin þversögn í umræðunni, það er verið að kalla eftir meiri útgjöldum. Það er kannski meginniðurstaðan hér, hvað við erum að fá fyrir peninginn. Það verður okkar verkefni til framtíðar.

Í sameiginlegum ábendingum vil ég draga fram að gert hefur verið samkomulag við Hagstofu Íslands um samstarf um upplýsingaöflun í aðdraganda spágerðar og sviðsmyndagreiningar, að sama skapi er varðar sviðsmyndir og næmnigreiningar. Eru nokkuð mörg atriði í sameiginlegum ábendingum nefndarinnar sem vert er að vísa til sem má eiginlega segja að svari umræðunni og nýttust vel, merkti ég, í allri umræðunni um málið. En þar kemur fram að umfjöllun um fjárfestingar þarf að vera ítarlegri og brýnt er að leggja enn meiri áherslu á að fara yfir og greina og bregðast við ábendingum fjármálaráðs og bæta við greinargerð áætlunar ýmsum dæmum og sviðsmyndum. Nefndin var sammála um öll þau atriði sem fara þarf í og er tekið undir það með fjármálaráði að mikilvægt sé að greina hugsanleg áhrif samdráttar í ferðaþjónustu; það má segja að nefndin hafi, í sínum sameiginlegu ábendingum, verið tilbúin í þá umræðu og kannski slegið tóninn fyrir hana.

Áætlunin er ekki greypt í stein. Í henni birtist skýr forgangsröðun ríkisstjórnar sem fram kemur í stjórnarsáttmála og er í samræmi við (Forseti hringir.) samþykkta stefnu. Þess vegna leggjum við til að hún verði samþykkt hér óbreytt.