148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Það sem sker í augun varðandi þessa fjármálaáætlun er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hinir efnameiri og þeir sem betur mega sín mega vera ánægðir, en þeir sem hafa verið gleymdir verða áfram gleymdir. Það er þversögn að á málefnasviðinu örorka og málefni fatlaðs fólks segir að fólk með skerta starfsgetu eigi að geta lifað sjálfstæðu lífi, samt á ekki að hækka lífeyri fyrir þetta fólk sem allir vita að er smánarlegur, nema á bilinu 3,1–4,3% næstu fimm árin. Það er eðlilegt að Öryrkjabandalagið spyrji hvernig fólk með skerta starfsgetu eigi að geta lifað sjálfstæðu og mannsæmandi lífi þegar boðið er upp á slíka framfærslu. Gagnvart stöðu þessara hópa sem höllustum fæti standa skilar ríkisstjórnin í raun og veru auðu. Það eru óljós fyrirheit í stað þess að tryggja því fólki sem býr við lökustu kjörin viðunandi lífskjör. Þeirri stefnu verður að linna, sem áfram er boðuð hér, að fólki sé meinað í krafti sjálfsbjargarviðleitni að bæta sinn hag, hafi það til þess vilja og getu, með aukinni vinnu.

Ég vil leyfa mér að geta þess að við í Flokki fólksins höfum beitt okkur í þessum efnum með því að flytja hér frumvarp um að fella niður hið svokallaða frítekjumark vegna launatekna aldraðra. Við megum sæta því og þeir sem málið varða að það mál er stöðvað í nefnd, rifið úr þingnefnd og vísað til ríkisstjórnarinnar í krafti meirihlutaákvörðunar hér á Alþingi. Það er ekki nóg að hafa uppi fögur orð gagnvart einstökum þjóðfélagshópum eins og þeim sem hér um ræðir. Verkin, herra forseti, sýna merkin.

Bótakerfin, vaxtabæturnar, barnabæturnar, eiga áfram að vera í niðurníðslu. Það er gert ráð fyrir óbreyttu kerfi vaxtabóta og viðmiðunarupphæðum næstu árin. Þegar kemur að barnabótum eiga þær áfram að skerðast vegna tekna umfram 240.000 kr. sem, eins og allir vita, eru langt undir lágmarkslaunum sem nú eru 300.000 kr. Ef við víkjum að hjúkrunar- og dvalarheimilum, velferðarstofnunum í heilbrigðismálum, þá liggur fyrir að kröfulýsingar vegna þjónustu sem þeim er ætlað að veita og ríkisstjórn mótar á hverjum tíma, reynast langt undir þeim kröfum sem gera ber til slíkrar þjónustu eins og landlæknir hefur ítrekað bent á.

Það eru mikil vonbrigði, herra forseti, að ekki sé brugðist með ákveðnari hætti við fjárhagsvanda SÁÁ, ekki síst í ljósi hins alvarlega vanda sem við er að eiga í áfengis- og fíknimálum. Vakni stjórnvöld ekki til vitundar um mikilvægi þessarar starfsemi þá blasir náttúrlega við að hún mun skerðast að mun á komandi tímum. Það verður, herra forseti, ekki vikist undan því að bæta úr fjárhagsstöðu SÁÁ, enda fara fá heimili í landinu varhluta af áfengis- og fíknivandanum. Stóra innviðaátakið reynist vera orðin tóm eins og ég rakti ítarlega í fyrri ræðu.

Samandregið: Forsendur fjármálaáætlunar eru reistar á óhæfilegri bjartsýni um framvindu efnahagsmála og gengið gegn grunngildi um varfærni í því efni. Mig langar að nefna í lokin og koma á framfæri lítilli leiðréttingu við álit 4. minni hluta sem ekki var unnt að gera eftir að mælt hafði verið fyrir því, en það er á bls. 11, þar er 4. mgr. ofaukið og bið ég um að það verði tekið til greina.