148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hef sagt það áður í umræðu um þetta mikilvæga mál að fjármálastefna og fjármálaáætlun hverrar ríkisstjórnar er helsti prófsteinn hennar, ekki aðeins á pólitíska forgangsröðun, ekki aðeins á hvaða fjármagni eigi að verja til einstakra verkefna, heldur á mikilvægi ríkisfjármálanna í hagstjórn. Þetta er efnahagsstefna ríkisstjórnar á hverjum tíma og skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er prófsteinn á hlut ríkisfjármálanna í hagstjórninni á hverjum tíma. Á því prófi fellur þessi ríkisstjórn, kolfellur.

Það er sorglegt að horfa upp á það að hér er verið að endurtaka mistök, ekki síðasta uppgangstímabils hjá okkur sem endaði með skelfingum, heldur eru mistökin í raun og veru síendurtekin í allri fullveldissögu okkar. Við sjáum að ríkisfjármálin, pólitíkin, bregst alltaf ábyrgðarhlutverki sínu þegar kemur að hlutverki ríkisfjármála í hagstjórn. Seðlabanki er alltaf skilinn einn eftir með það verkefni að stuðla að verðlagsstöðugleika og gengisstöðugleika.

Á þessari 100 ára sögu höfum við sprengt utan af okkur á annan tug mismunandi aðferða í peningastjórn, á annan tug mismunandi tilrauna til þess að stuðla hér að verðlags- og gengisstöðugleika. Er það nema von að á vinnumarkaði, hjá almenningi, ríki engin trú á því að slíkum stöðugleika sé hægt að ná hér á landi?

Enn og aftur bregðast stjórnmálin í þessu samhengi. Hér er meginmarkmið þessarar ríkisfjármálaáætlunar með öllum þeim góðu verkefnum sem henni er ætlað að leysa. Ég er ekki að gagnrýna hvernig forgangsraðað er þeim fjármunum sem hér er verið að úthluta, heldur virðist markmiðið fyrst og fremst vera að slá eitthvert útgjaldamet í hápunkti hagsveiflunnar. Það er mjög varhugavert og beinlínis óábyrgt á þessum tímapunkti þegar við sjáum ýmsar blikur á lofti í efnahagsmálum. Við vitum að afleiðingin er, og hefur skýrt verið varað við af hálfu Seðlabankans, að hér verður vaxtastig hærra en ella. Atvinnulífið þarf að bíða lengur en ella eftir nauðsynlegu súrefni og gengi krónunnar verður sterkara en ella, sem grefur undan útflutningsatvinnugreinum, þeim sömu útflutningsatvinnugreinum og ríkisstjórnin hefur talað mjög duglega um að mikilvægt sé að styrkja.

Í öðru lagi eru efnahagslegar forsendur þessarar fjármálaáætlunar mjög veikar. Þær byggja á ákaflega bjartsýnum spám um lengsta sögulega hagvaxtarskeið allra tíma. Þegar við horfum á þau merki kólnunar sem þegar eru farin að birtast í hagkerfinu þá er alveg ljóst að full ástæða er til að gæta varkárni hvað þetta varðar, að þá er meira svigrúm, meiri afgangur, minni áform um útgjaldaaukningu, af því að það er alveg ljóst þegar við horfum á sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma litið, að þau verkefni sem hér er verið að lofa fjármagni til verða ekki fjármögnuð að fullu á óbreyttum tekjugrundvelli ríkissjóðs. Þessi eitraði kokteill, málamiðlun þessara stjórnarflokka að ætla að stórauka ríkisútgjöld á sama tíma og skattar eru lækkaðir, er einfaldlega óraunhæf og ósjálfbær og alveg ljóst að við munum lenda í svipuðum vanda og svo oft áður, að við munum annað tveggja eða hvort tveggja þurfa að hækka skatta í niðursveiflunni og/eða draga saman í ríkisútgjöldum. Því höfum við lent í áður. Það ætlum við greinilega að endurtaka með því sem sett er fram í þessari áætlun.

Í þriðja lagi má gagnrýna að markmið ríkisfjármálaáætlunarinnar eru mjög óljós. Þetta er nokkuð sem þingið allt þarf að vinna betur. Það mátti líka gagnrýna fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar fyrir. Það er óljóst hvernig við ætlum að mæla árangurinn, af því að árangurinn verður ekki bara mældur í því fjármagni sem veitt er til verkefnanna, heldur hvað kemur út úr því, hvað fáum við fyrir það fjármagn sem við veitum til verkefnanna, hvort sem við horfum til menntakerfisins eða heilbrigðiskerfisins.

Komið hefur skýrt fram í umræðunni í þinginu í vetur að við vitum harla lítið um það hverju það fjármagn sem við setjum í heilbrigðiskerfið á hverjum tíma skilar raunverulega, hver skilvirkni þess er, hvert kostnaðarstig þess er, hvar við gætum mögulega gert betur. Því verðum við að bæta úr. Ég held að hér þurfi að fækka verulega þeim markmiðum, þau eru, held ég, um 370 talsins í þessari áætlun, ég held það ættu að vera 30 til 40 meginmarkmið og skýr árangursmælikvarði. Það eru kostir stefnumótunar eins og fjármálaáætlun á sannarlega að vera í ríkisfjármálum á hverjum tíma.

Að lokum má nefna að við horfum til þess að þingið hefur allt of skamman tíma til þess að fjalla um þetta mikilvæga stefnuplagg. Það hefur í raun og veru harla lítil úrræði til að bregðast við því með nokkrum vitrænum hætti. Við vitum í raun og veru ekki hvað drífur áfram kostnaðinn sem lagt er upp með, hverju þarf raunverulega til að kosta til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram. Það þýðir að fjárlaganefnd (Forseti hringir.) er verulegur vandi á höndum að koma fram með einhverjar breytingartillögu annaðhvort til að endurskoða markmið eða varðandi útgjöld til einstakra málefnasviða. Úr því (Forseti hringir.) þurfum við að bæta úr sameiginlega.