148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er mjög ánægð með þá fjármálaáætlun sem hér liggur frammi því í henni er efnt það sem lofað var fyrir kosningar og blásið til sóknar. Það er blásið til sóknar í þeim málaflokkum sem varða þjóðina mestu og þar nefni ég að sjálfsögðu heilbrigðismálin en líka menntamálin, sem hafa legið óbætt hjá garði, samgöngumálin, þar sem svo sannarlega er þörf á viðbótum, og kjarabætur fyrir örorkulífeyrisþega. Ég hlýt að nefna líka umhverfis- og náttúruverndarmál sem fá aukið vægi í þessari fjármálaáætlun langt frá því sem við höfum áður séð.

Það vinnulag sem við höfum viðhaft við innleiðingu laga um opinber fjármál hefur verið lærdómsferli. Það er áhugavert að lesa umsögn fjármálaráðs og halda áfram að læra af þessu vinnulagi frá ári til árs. Þar sjáum við að okkur hefur farið fram og okkur á eftir að fara fram í því að horfa til lengri tíma í ríkisfjármálum. En fyrst og fremst er það mikilvægt að hér er verið að blása til raunverulegrar sóknar eins og krafa hefur verið uppi um í samfélaginu mörg undanfarin ár. Ég er stolt af því að fá að greiða atkvæði með þessari fjármálaáætlun.