148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú fjármálaáætlun sem nú liggur frammi er vonbrigði, við höfum ekki dregið dul á það. Auðvitað má alltaf gera betur en í því tilviki sem við horfum upp á núna, til næstu fimm ára, 5 þús. milljarðar, er næsta víst og algerlega óumdeilt að sá þjóðfélagshópur sem situr við skarðastan hlut og býr í fátækt fær að halda því áfram næstu fimm árin. Það er alveg á hreinu. Á meðan ríkisstjórn situr sem getur lækkað bankaskatt um 7,3 milljarða, getur tekið 14 milljarða í að lækka 1% af neðra skattþrepi, sem kannski skilar einhverjum hundraðköllum til þeirra sem verst eru settir en meira til hinna, þá er alveg ljóst hvar forgangsröðun liggur. Það er sannarlega ekki hjá fólkinu sem þarf mest á aðstoð þessarar ríkisstjórnar að halda. Því mun ég á engum tímapunkti styðja þessa áætlun.