148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ávísun á fátækt og eymd — þetta er orðrétt álit Öryrkjabandalags Íslands á fjármálaáætlun. Er þetta erindi hv. stjórnarþingmanna í pólitík? Þeir auknu fjármunir sem eru tryggðir til aldraðra í áætluninni eru fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi. Þegar kemur að öryrkjum er hækkunin umfram fjölgun einungis 4 milljarðar sem duga ekki einu sinni fyrir þriðjungi af afnámi krónu á móti krónu skerðingar, hvað þá fyrir öðrum kjarabótum.

Samfylkingin vill bæta hér úr og leggur því til aukningu upp á 4,5 milljarða. Hér er því tækifæri fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að standa við þau loforð sem þeir hafa allir ítrekað gefið öldruðum og öryrkjum. Hættum að láta þessa hópa alltaf mæta afgangi. Ég segi já.