148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012. Málið kemur frá atvinnuveganefnd.

1. gr. hljóðar svo:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga, m.a. 8. og 9. gr., skal veiðigjald á landaðan afla, frá og með 1. september til 31. desember 2018, nema í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla þeim fjárhæðum sem hér segir …“ Síðan kemur tafla yfir veiðigjöld á hvert kíló af fisktegundum sem ég ætla ekki að lesa upp hér en bið alla að kynna sér.

Veiðigjald annarra nytjastofna en í töflunni greinir er 1,03 kr. á hvert kílógramm óslægðs afla. Veiðigjald fyrir hval er sem hér segir: Langreyður 51.440 kr. og hrefna 8.230 kr. Veiðigjald á sjávargróður er 514 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara. Hver gjaldskyldur aðili á rétt á því að veittur sé 20% afsláttur af fyrstu 1.580.000 kr. álagðs veiðigjalds og 15% afsláttur af næstu 1.580.000 kr. álagningar vegna afla sem landað er frá 1. september til 31. desember 2018.

2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fyrirmælum annarra ákvæða laganna verður beitt við framkvæmd laga þessara, þótt lögin falli að öðru leyti úr gildi 31. desember 2018.“

Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Lög um veiðigjald falla úr gildi 31. desember nk. og að óbreyttu stendur engin lagaheimild til álagningar veiðigjalds á landaðan afla í botnfiski frá 1. september nk. Með frumvarpi þessu er því lagt til að veiðigjald fiskveiðiársins 2017/2018 verði framlengt óbreytt, þannig að það gildi út almanaksárið 2018.

Unnið hefur verið að frumvarpi um heildarendurskoðun laga um veiðigjald í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með atbeina veiðigjaldsnefndar. Gert er ráð fyrir því að ráðherra mæli fyrir því frumvarpi næsta haust.

Sú tafla sem stendur í 1. gr. þessa frumvarps er tekin óbreytt úr reglugerð nr. 310/2018 um breytingu á reglugerð nr. 637/2017, um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalda fiskveiðiárið 2017/2018. Þannig verður veiðigjaldið, sem áður segir, óbreytt út almanaksárið 2018. Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að svonefndur persónuafsláttur verði einnig óbreyttur, að teknu tilliti til gildistíma frumvarpsins.

Verði frumvarp þetta að lögum má gróft áætla tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi tímabilsins 1. september til ársloka 2018 sem þriðjung af tekjum ríkissjóðs af veiðigjaldi fiskveiðiársins 2017/2018, þ.e. að tekjurnar muni nema um 3,6 milljörðum kr.“