148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[14:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, framsögumanni málsins, fyrir hans orð. Ég vil nýta tækifærið til að vekja athygli á því sem fram kom í máli hv. þingmanns og framsögumanns um þær tillögur sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd varð einhuga um í tillögum sínum sem hér koma fram, þ.e. að bæði 9. gr. frumvarpsins falli brott og 13. gr. frumvarpsins sem, að mati allra nefndarmanna, voru allt of brött hækkun á bæði sektarákvæðum og refsirammanum.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu kom það fram, í máli gesta sem fyrir nefndina voru kallaðir, að margir þeirra sem hafa undanfarin ár reynt að brjótast um borð í skip eru einstaklingar sem hér hafa sótt um alþjóðlega vernd og bíða úrlausnar Útlendingastofnunar eða hafa fengið synjun og bíða brottflutnings. Hlutfall þessara einstaklinga er ansi hátt af þeim sem hafa gerst sekir um að reyna innbrot í skip og kom það fram í máli gesta fyrir nefndinni að ásetningur þessa fólks væri að reyna að koma sér úr landi, eitthvert annað oft og tíðum, á meðan algjör óvissa biði þeirra hér á landi vegna tafa á þeirra málum.

Virðulegi forseti. Það er einlæg von mín að ráðuneytið taki þessar ábendingar og ummæli sem fram koma í nefndarálitinu alvarlega um það að um allt of bratta hækkun á refsiramma í stjórnsýsluákvæðunum er að ræða og að við fáum hér tillögur sem eru þannig úr garði gerðar að þær gæti jafnræðis og hófsemi, sérstaklega þegar kemur að því að að mestu leyti er um að ræða einstaklinga í afskaplega viðkvæmri stöðu sem bíða úrlausnar mála sinna, eru að sækja um alþjóðlega vernd til okkar hér. Þá er kannski vert að geta þess að á sama tíma og samhliða þurfum við að skoða alvarlega þann tíma sem líður frá því að fólk sem hingað hefur leitað eftir alþjóðlegri vernd þarf að bíða eftir því að fá niðurstöður í sín mál og bíða úrlausnar. Lausnin er svo sannarlega ekki sú að hækka refsirammann eins og fram kemur í frumvarpinu eða fjársektirnar svona bratt. Ég er því afskaplega ánægð með þá samstöðu sem fram kom í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um þau atriði. Ég þakka félögum mínum í nefndinni fyrir það og vona svo sannarlega að gerðar verði bragarbætur á þessu frumvarpi til handa þessum viðkvæma hópi.