148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál
[15:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga sem hefur verið kallað keðjuábyrgð. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór ágætlega yfir málið. Ég kem fyrst og fremst upp til að ítreka og styðja það ákvæði sem kemur fram í breytingartillögunni. Það kemur ekki til af engu heldur vegna þess að nefndin hefur í samtölum sínum við gesti og í umsögnum haft nokkrar áhyggjur af því að keðjuábyrgðarmálið þurfi að ná til fleiri aðila. Breytingartillagan nær ágætlega utan um það og er það vel.

Nefndin hafði hins vegar í umfjöllun sinni og í álitum frá gestum vissu fyrir því að enn sem komið væri afar lítil vitneskja um að mál sem lögin myndu ná utan um væru að koma upp hér á landi. Í því ljósi telur nefndin skynsamlegt að samþykkja breytingartillöguna eins og hún er. Með því má tryggja að slík mál haldi áfram að vera í skoðun svo að réttur vinnandi fólks á Íslandi sé sambærilegur á milli atvinnugreina og vinnuveitendur geti ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð og jafnframt að vinnuveitendur og þeir sem stunda atvinnurekstur geti gengið að því sem vísu að þeir búi við sambærileg skilyrði á milli atvinnugreina og fyrirtækja.