148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

virðisaukaskattur.

562. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar, sem fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ríkisskattstjóra.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi kveðið á um breytingar á lögum um virðisaukaskatt er varða kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa, samanber 1. og 5. gr. frumvarpsins, en núgildandi ákvæði laganna þar að lútandi eru komin til ára sinna vegna örra tækniframfara og breyttra viðskiptahátta. Breytingarnar byggjast einkum á skýrslu starfshóps um kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa, en í þeim felst sú meginregla að skattlagningarstaður á veitingu þjónustu í milliríkjaviðskiptum verður sá staður þar sem neysla þjónustunnar á sér stað út frá búsetu kaupanda þjónustunnar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum um rafræna sölu og áskriftir á tímaritum og fréttablöðum í samræmi við tillögu nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Er sala rafrænnar útgáfu tímarita og blaða færð niður í neðra þrep virðisaukaskatts líkt og gert var við rafrænar bækur og rafræna útgáfu tónlistar með lögum nr. 121/2011.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu kveðið á um að rekstraraðilum fólksbifreiða sem fengið hafa sérstakt leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu, samanber 10. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, verði heimilt að telja skatt á aðföngum vegna þeirra viðskipta sem innskatt.

Að framansögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.

Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastaþingsins.

Undir álitið skrifa sá sem hér stendur, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Karl Liljendal Hólmgeirsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.