148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og nota tækifærið þegar samningar hafa náðst um þinglok að þakka henni og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni og öðrum nefndarmönnum fyrir afar góða vinnu í flóknu máli. Það kann að vera að einhverjum finnist þetta ekki vera stærsta mál þessara þingloka, en þetta er stórt mál fyrir þann hóp sem notar rafrettur og eins stórt samfélagsmál að mörgu leyti.

Ég vil geta þess, þó að hv. þingmaður hafi næstum því boðað það andsvar sem ég ætla að fara með og orðaði það að sumu leyti betur en ég mun gera sjálf, að algjörlega skýrt er að fyrir liggur að engin ástæða er til að setja reglugerð á grundvelli laganna um tankastærðir fyrr en gerðin hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Það er auðvitað ekki vitað hvenær það verður en reglugerðin, sem yrði sett af þeim ráðherra sem þá gegnir embætti heilbrigðisráðherra, tæki mið af stærðunum sem þar verða niðurstaðan.

Virðulegur forseti. Ég vildi að þetta lægi algjörlega fyrir þannig að ekkert orkaði tvímælis með það í hvaða röð hlutirnir gerast. Ég tel að þetta sé farsæl niðurstaða í því álitamáli sem kom upp og var strax rætt við 1. umr. málsins. Ég vænti þess að þetta verði enn frekar til þess að sátt geti ríkt um afgreiðslu og niðurstöðu málsins í heild.