148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:54]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Ég er sorgmædd yfir þessu máli öllu og hvernig það hefur verið leitt til lykta. Í dag stendur langlíklegast til að setja í lagabókstaf á Íslandi ósamþykkta tilskipun frá Evrópusambandinu um veip, um mál sem er það nýtt af nálinni í skaðaminnkun hvað varðar tóbaksreykingar að þegar það kom fyrst inn í þetta hús til vinnslu viðurkenndu margir fyrir mér að þeir hefðu ekki hundsvit á því. Innan þessara veggja, hinnar virtustu stofnunar Íslands, hefur heldur betur verið í boði að afla sér þekkingar ofar þeirri sem myndi teljast „að hafa hundsvit á málinu“. Færustu sérfræðingar hafa komið og lýst yfir skoðun sinni og afstöðu og reitt fram vísindalegar niðurstöður á rannsóknum um veip, horft hefði verið til hins besta í þessum málum. Erlendir sérfræðingar hafa komið sérstaklega til Íslands til þess eins að ræða þetta mál við vinnslu þess í nefndum.

Því miður hefur ekki verið hlustað á þessa sérfræðinga og vísindamenn. Það hefur heldur ekki verið hlustað á háværar raddir veipara í samfélaginu, fólk sem er að senda tölvupósta, mótmæla, reyna að fá einhvers konar áheyrn vegna þess að þetta er, eins og áður segir, mál sem er mjög nýtt af nálinni; er eins og nýtt land sem enn er verið að átta sig á. Auðvitað er skiljanlegt að menn vilji stíga varlega til jarðar hvað varðar börn og notkun þeirra á þessari tækni, ég hef fullan skilning á því. Hins vegar er mjög mikilvægt að kasta ekki barninu út með baðvatninu, ekki hefur verið hlustað á almennar skynsemisraddir í þessu máli.

Ég veit vel að hér er ekki verið að banna veip. Hins vegar er sannanlega, fari þetta í gegn í dag, verið með lagasetningu að leggja stein í götu heilbrigðisbyltingar, skaðaminnkandi úrræðis sem hefur komið eins og himnasending fyrir læknisfræðina og fyrir þúsundir íslenskra fyrrverandi reykingamanna, stein í götu skaðaminnkandi úrræðis sem ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hafi þann möguleika að bjarga ótalmörgum mannslífum hér á landi. Þess vegna er svo mikilvægt að horfa á heildina í þessu máli. Þetta snýst ekki bara um veipara, ekki bara um reykingamenn, þetta snýst um samfélagið allt; fólk sem við elskum og tæki og tækni sem vísindalega hefur verið sýnt fram á að dregur stórlega úr líkum á því að það fólk, ástvinir okkar, fái sjúkdóma og deyi af völdum þeirra.

Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði hér uppi í pontu um daginn. Krabbameinslæknir á heimsmælikvarða sagði við mig: Ef hægt væri að láta alla reykingamenn færa sig yfir í veip myndum við sjá tölurnar um tíðni krabbameins lækka svo stórkostlega að við myndum ekki vita hvaðan á okkur stæði veðrið. Þetta fullyrti hann. Hann lofaði mér þessu. Ég tek sannarlega undir orð hv. formanns velferðarnefndar, hv. þm. Halldóru Mogensen, og fagna þeim samstarfsvilja sem ráðherra og aðrir nefndarmenn hafa þó sýnt í þessu máli; þeir hafa viljað hafa samtal við okkur. En það er þyngra en tárum taki að heilt yfir hefur þetta mál, sem varðar mannslíf, verið unnið hér innan veggja Alþingis sem pólitík en ekki vísindi.