148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:59]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf haft miklar efasemdir um þetta mál eins og gefur að skilja enda almennt óánægð með boð og bönn í stað þess að einblína á forvarnir, sama um hvað er rætt, sérstaklega er ég með efasemdir í ljósi óljósrar skaðsemi rafrettna. Hér er auðvitað um Evrópureglur að ræða og mikilvægt að finna lausn á því. Ég vil þakka hv. nefndarmönnum og formanni hv. velferðarnefndar fyrir góða vinnu í þessu máli. Ég tel að hér séu að koma ýmsar breytingartillögur sem gera að verkum að frumvarpið gangi skemur en í upphafi.

Ég sagði eitt sinn að mér fyndist frumvarpið sem kom hér í fyrra, en það gekk allt of langt, vera langt frá meðalhófi hvað það varðar hvernig setja ætti reglur í fyrsta sinn um eitthvað sem óljóst væri hvort væri skaðlegt — ég líkti því við að við værum að drepa rjúpu með sprengju. Það er upplifun margra af því þetta er gott tæki fyrir svo marga sem eru að hætta tóbaksreykingum, sígarettureykingum. En ég skil líka önnur sjónarmið sem hér eru uppi. Ég tel margt til bóta og sérstaklega ánægjulegt að heyra frá hæstv. ráðherra að hann ætli ekki að setja íþyngjandi reglugerð áður en endanleg niðurstaða ESB liggur fyrir um skammtastærðir og annað slíkt.

Það er þó ein breytingartillaga sem ég get ekki fellt mig við, það er bannið varðandi veitingastaðinn. Ef við ætlum að treysta einkaaðilum til að ráða því hvort hundur eða köttur sé inni á veitingastaðnum þeirra, eigum við líka að geta treyst þeim fyrir því hvort þar sé fólk með rafrettur eða ekki. Fólk ákveður þá bara sjálft hvort það vill sækja þá staði sem leyfa slíkar rafrettur eða sækja þá staði sem banna slíkar rafrettur. Við hljótum að geta treyst fólki fyrir því.

Ég mun leggjast á móti þeirri breytingartillögu. Það er engin ástæða til að ganga lengra en tilskipunin segir til um. Ég vona að fólk hugsi aðeins um það hversu langt við ætlum að ganga í máli þar sem skaðsemin er enn talsvert óljós.