148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, veiðigjald 2018, frá minni hluta atvinnuveganefndar.

Fyrsti minni hluti leggur til breytingartillögu við frumvarpið í þá veru að ákvæði til bráðabirgða II við lögin verði framlengt, frá þeim tíma er það rann út og gildi til loka ársins 2018 eða þar til Alþingi hefur samþykkt ný lög um veiðigjald. Í ákvæðinu er kveðið á um lækkun veiðigjalds vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum. Ákvæðið féll úr gildi við lok fiskveiðiársins 2016/2017.

Rekstur margra minni og meðalstórra fyrirtækja hefur komist í uppnám, m.a. vegna styrkingar á gengi krónu, en alvarlegust áhrifin á rekstrarskilyrði smærri og millistórra útgerða eru tilkomin vegna þess að gjaldstofn veiðigjalda er reiknaður út frá rekstrarforsendum sem ekki eiga við í dag. Því er mikilvægt að ákvæðið öðlist gildi að nýju svo að komast megi hjá gjaldþrotum eða sölu minni fyrirtækja.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:

Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:

a. Í stað ártalanna ,,2016/2017“ í 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 2. málsl. 6. mgr. kemur: 31. desember 2018.

b. Í stað dagsetningarinnar ,,31. desember 2016“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: 31. desember 2018.

c. Í stað ártalanna ,,2012–2016“ í 3. málsl. 6. mgr. kemur: 2012–2018.

Undir þetta ritar sá er hér stendur sem er í atvinnuveganefnd.

Ég vil segja það um þetta mál að ég var búinn að spyrja sjávarútvegsráðherra að því í vetur hvað væri að frétta af veiðigjaldamálinu. Það svar kom að málið væri í vinnslu. Síðan gerist ekki neitt en núna fyrir nokkrum dögum kom þetta frumvarp inn í atvinnuveganefnd. Ég greiddi því atkvæði að það yrði afgreitt úr nefnd, var á málinu, til þess að það fengi umræðu í þinginu því að það er mjög brýnt að þetta mál fái framgöngu. Síðan greiddi ég atkvæði gegn því að málið kæmist á dagskrá. Þá urðu margir mjög hissa en ég útskýrði það í pontu Alþingis, þ.e. það var vegna þess að mál, sem við í minni hlutanum vorum með sem ég vildi að fengju afgreiðslu, voru föst í nefnd. Þess vegna greiddi ég atkvæði á móti því að þetta mál kæmist á dagskrá, svo það sé sagt aftur. En þá ætla ég ekki að segja meira um það í bili.