148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[17:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hagur útgerðarinnar hefur vænkast um 366 milljarða kr. frá hruni til loka árs 2016. Arðgreiðslur til útgerðarmanna námu 66 milljörðum frá 2010–2016 en á sama tíma greiddu útgerðirnar einungis 45 milljarða í veiðigjöld. Takið eftir að þessi arður og hagnaður er vegna nýtingar á auðlind sem þjóðin á samkvæmt lögum en ekki fáein fyrirtæki eða fjölskyldur. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst frá hruni um 300 milljarða kr., sem er 50% meira en það sem við setjum í allt heilbrigðiskerfið.

Þá var heldur ekki annað að sjá á þeim álagningarskrám sem birtar voru í síðustu viku en að eigendur og fyrrverandi eigendur margra af þeim fyrirtækjum, sem nú áttu að fá ríflegan afslátt, hafi haft það bara býsna gott undanfarið. Eigendur útgerðarfyrirtækja, sem á sama tíma fengu kvótann sinn gefins.

Þrátt fyrir þetta ætlaði ríkisstjórnin að lækka veiðigjöld um tæpa 3 milljarða hér á lokaspretti þingsins. Stórútgerðin hefði fengið bróðurpartinn af því. Þessu mótmæltum við flest harðlega í stjórnarandstöðunni. Því var á endanum fallið frá frumvarpi meiri hlutans. Við í Samfylkingunni teljum ásættanlegt að á meðan betri lausn liggur ekki fyrir verði veiðigjöldin í núverandi mynd framlengd eins og meiri hlutinn leggur til. En spurningunni um hvert og með hvaða hætti arður af fiskveiðiauðlindinni okkar rennur til framtíðar er enn ósvarað. Hún verður eflaust rædd til hlítar á næsta þingi.

Það hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun að bjóða út fiskveiðikvóta. Þannig er almenningi best tryggður sanngjarn auður af sameiginlegri auðlindinni. Útgerðirnar borga þá mikið þegar vel árar og minna þegar verr árar og þannig er tryggt að reksturinn geti gengið.

Útboð á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti myndi líka veita nýliðum aðgengi og skila, eins og áður, sagði eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar. Það deilir enginn um að smærri útgerðir eru margar í vanda og eru flestir sammála um að nauðsynlegt sé að koma til móts við þær með einum eða öðrum hætti. Þær aðgerðir verða þó að vera markvissar og beinast að þeim sem þurfa raunverulega á þeim að halda. Þá er hluti vandans tilkominn vegna þess að þær þurfa að kaupa kvóta á frjálsum markaði af öðrum kvótahöfum og greiða þær heimildir háu verði. Og veiðigjaldið ofan á. Þau áform sem uppi voru hjálpa þeim því lítið.

Það verður aldrei sátt um kerfi sem hyglir útgerðarmönnum eða kerfi þar sem gjaldið er ákveðið með tilfallandi hætti, allt eftir því hvaða ríkisstjórn er við völd. Það er þess vegna bæði þjóðinni og útgerðinni nauðsynlegt að ná sáttum í þessu máli. Ég vona svo sannarlega að við færumst nær því á nýju þingi. Samfylkingin lofar að koma inn í þá umræðu með málefnalegum hætti.

Ég hef hins vegar mínar efasemdir um að sú verði raunin á meðan Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynda hér meiri hluta. Það frumvarp sem lagt var fram í síðustu viku sýnir það því miður. En við bjóðum út opna arma og erum tilbúin næsta haust til að takast á og ræða og finna leiðir til sátta í þessari langvinnu deilu.