148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Hér er um að ræða frumvarp um að viðhalda veiðigjöldum óbreyttum til áramóta, að vísu þó þannig að afslátturinn, sem gildir vanalega yfir tólf mánaða tímabil, gildi yfir fjögurra mánaða tímabil í haust. En ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því fyrirkomulagi núna heldur frekar að halda því til haga í umræðunni í haust. Það er ágætt að afslátturinn haldi sér en ég mæli gegn því að fólk láti sér detta í hug að þetta þýði að tvöfaldur afsláttur verði á næsta ári út af rugli með skilgreiningar.

Frumvarpið er niðurstaða samningaviðræðna þingflokkanna á Alþingi og er því í raun ekki uppáhaldsniðurstaða nokkurs manns. En ég þakka meiri hlutanum fyrir þann liðleika að sjá að sér og komast að samkomulagi þótt það samkomulag sé samkomulag um biðstöðu. Ég vona að það feli líka í sér að umræða í haust verði á grundvelli staðreynda og skynsemi. Það er kannski ekki margt að segja um frumvarpið sem slíkt en mig langar til að ræða aðeins um það pólitíska stórslys sem leiddi af sér að við komumst á þennan punkt.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti eftir sveitarstjórnarkosningarnar kom fram frumvarp í atvinnuveganefnd sem unnið var í ráðuneytinu og var alfarið á skjön við þá umræðu sem hafði verið í gangi fram að því. Þetta var frumvarp til stórfelldrar lækkunar veiðigjalda á þann hátt að yfirgnæfandi meiri hluti þeirrar lækkunar skilaði sér til örfárra stórra útgerða, þrátt fyrir að frumvarpið væri ranglega markaðssett sem einhvers konar góðmennska við trillukarla. Auðvitað varð mikil reiði vegna þessa hjá stjórnarandstöðunni. Við stóðum okkur vel í samstöðunni gegn því, enda var um að ræða gríðarlega aukningu á félagslegum velferðarúrræðum fyrir stórútgerðarmenn sem flestum þykir kannski að séu aðnjótandi of mikilla hlunninda nú þegar. En það komu auðvitað upp erfiðar spurningar í þessu samhengi. Hvers vegna var ekki hægt að gera þetta á heiðarlegri hátt í góðu samstarfi yfir lengri tíma? Hvers vegna lá svo mikið á að klára þetta að öllu þinghaldi var stefnt í voða vegna þess? Hvers vegna höfðu Vinstri græn ákveðið að taka 180 gráðu beygju í auðlindamálum? Þessum spurningum verður auðvitað ekki svarað nema með tilvísun í stjórnarsamstarfið.

En við erum komin hingað. Ríkisstjórnin virðist vera að reyna að ýta undir þá söguskýringu að það hafi verið vonda stjórnarandstaðan sem kom í veg fyrir lægri veiðigjöld fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Þeirri söguskýringu ættu auðvitað allir að hafna ef þeir horfa á staðreyndir málsins. Hér er í raun um að ræða fullnaðarsigur stjórnarandstöðunnar í þessari umferð áframhaldandi stríðs til að koma í veg fyrir gríðarlega tilfærslu auðs frá almenningi til sjávarútvegsrisanna en auðvitað viljum við líka hlúa að smáum og meðalstórum útgerðum. Þetta er viðhald gallaðs kerfis sem mun alltaf ýta undir samþjöppun auðlindaaðgengis og veiðiheimilda á hendur örfárra aðila. Það mun alltaf gera að verkum að bæjarfélög úti um allt land eru ýmist þrælar stóru útgerðanna sem eru þar eða fórnarlömb þeirrar útgerðar sem seldi sig burt þaðan. Þetta er það kerfi sem við búum við.

Frumvarpið viðheldur núverandi stöðu. Ég tel samt að það sé fyrsta skrefið í átt að viðsnúningi á umræðunni um auðlindagjöld í sjávarútvegi þar sem áform Sjálfstæðisflokksins hafa verið rekin til baka með hörku. Næstu skref skipta því máli. Markmið Pírata í sjávarútvegsmálum eru rosalega einföld. Íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, sem er eigandi auðlindarinnar, á að bjóða upp aflaheimildir til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð og úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar. Allur afli á að fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsauðlindir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem vinna með afleiddar afurðir. Að þessum markmiðum munum við stefna áfram vegna þess að þetta eru ótrúlega einfalt markmið: Frjáls markaður, frjálst fólk og frjálst samfélag.