148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það eru örugglega margir út um allt land sem urðu fyrir miklum vonbrigðum með að komið skyldi í veg fyrir að hér fengist umræða, efnislega umræða, og umfjöllun um frumvarp til breytinga á lögum um veiðigjald, á þskj. 1049, eins og það var lagt fram. Vil ég fá að vitna, með leyfi hæstv. forseta, m.a. í umsögn Landssambands smábátaeigenda sem sagði:

„Landssamband smábátaeigenda lýsir ánægju sinni með frumvarpið sem sýnt er að kemur til móts við rekstrarvanda smáútgerðarinnar.“

Síðar í sömu umsögn segir orðrétt, aftur með leyfi forseta:

„Allt frá upphafi þessa fiskveiðiárs hefur félagið reynt að tala kjark í menn sem vita ekki sitt rjúkandi ráð varðandi framhaldið. Farið hefur verið í gegnum atburðarásina sem endað hefur á þann hátt að útilokað sé annað en að veiðigjöld verði lækkuð. Því miður hafa slík samtöl ekki skilað nægilegum árangri sem sýnir sig í því að LS [þ.e. Landssamband smábátaeigenda] hefur horft á eftir aflahlutdeild frá gríðarlega hæfum útgerðaraðilum þar sem skuldastabbinn óx þeim yfir höfuð.“

Smábátaútgerðarmenn um allt land hafa ekki séð vonir sínar rætast. Alþingi Íslendinga hefur a.m.k. ekki séð ástæðu til þess að bregðast við vanda þeirra. Með því að koma í veg fyrir efnislega umfjöllun um það frumvarp sem ég var að ræða um, brást þingið þessum aðilum.

Við verðum að hafa staðreyndir í huga. Það er ljóst að útflutningsverðmæti sjávarafurða, sem nam 197 milljörðum á síðasta ári, hefur dregist saman um 68 milljarða frá árinu 2015 — 68 milljarða. Afkoman í sjávarútvegi hefur orðið lakari sem því nemur. Það var í ljósi þessara staðreynda sem ríkisstjórnin og meiri hluti þingheims taldi rétt, taldi nauðsynlegt, taldi það réttlætismál, að veiðigjöld yrðu endurskoðuð og þau myndu taka mið af raunveruleikanum í afkomu sjávarútvegsins, en komið var í veg fyrir það í þessum sal að það yrði gert. Bundnar voru vonir við að menn myndu hlusta á útgerðarmenn, fyrirtæki sem eiga allt sitt undir að þjónusta útgerð um allt land. Það var ekki gert.

Það er nöturlegt að þurfa að standa frammi fyrir þessu, sem er auðvitað gerður hlutur, hér í þinglok. En ég hygg að þeir sem tóku afstöðu, þeir sem tóku þá ákvörðun að koma í veg fyrir að hægt væri að bregðast við vanda sjávarútvegsins um allt land, þurfi aðeins að líta í eigin barm þegar þeir labba út í sumarið. Þeir ættu að gera sér far um það að heimsækja útgerðarstaði á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum, í Vestmannaeyjum, í Grindavík og annars staðar og ræða við fólkið og spyrja: Hvernig hef ég staðið undir þeim væntingum sem þú barst til mín? Hef ég gert það? (Forseti hringir.)

Það verður fróðlegt næsta haust að fá að vita hvaða svör þið hafið fengið.