148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Átök um sjávarútveginn hafa staðið lengi, alveg frá því seint á síðustu öld, fyrst um kvótakerfið sjálft eða aflamarkskerfið. Við erum að stærstum hluta komin út úr þeirri umræðu. Átökin standa núna um gjaldtökuna. Ég held, hvað svo sem mönnum finnst um umræðuna, að við séum að færast nær því að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu í það. Í það minnsta held ég að greinin sé ekki andvíg því lengur að greiða gjald fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind. Það ber hins vegar enn þá töluvert á því að þetta mikilvæga mál sé rætt með gífuryrðum og palladómum um einstaklinga eða fyrirtæki eða hvað eina. Það bera allir sök í þeim efnum, hvort heldur það er stjórn eða stjórnarandstaða, eða guð má vita hvaðan svo sem úr þjóðfélaginu það fólk kemur sem kýs að taka þátt í þeirri umræðu.

Ég ætla bara að minna á að það eru rúmlega þúsund kennitölur í þessari atvinnugrein. Þegar við erum að ræða málefni hennar eigum við að hafa það í huga að þetta er breið, skemmtileg, góð og öflug flóra.

Ég trúi því sömuleiðis að mikill vilji sé hér í salnum til að þeirri grein verði búið stöðugt rekstrarumhverfi, hún búi við eðlilega gjaldtöku og ég ætla rétt að vona að þingmenn allir séu sammála um að sú atvinnugrein standist samkeppni við erlendar samkeppnisgreinar. 98% af afurðum sjávarútvegsins á Íslandi er flutt á erlendan markað. Það er grundvallaratriði að löggjöfin í landinu geri þeirri atvinnugrein að standast þá hörðu samkeppni sem þar bíður íslenskra fyrirtækja við að koma afurðunum úr auðlindinni í verð á erlendum mörkuðum.

Ég bið þingmenn líka að hugleiða á hvaða stað við erum komin þegar við ræðum auðlindagjaldið eða veiðigjaldið. Í mínum huga er veiðigjaldið lagt á, eins og reglurnar eru núna, kíló af t.d. þorski burt séð frá því hver er að veiða. Þegar við erum farin að ræða hvort það skipti máli hver fær aðganginn að auðlindinni og veiðir fiskinn, þá erum við komin í aðra hugsun varðandi gjaldtöku af nýtingu sameiginlegra auðlinda. Þá erum við komin í annað kerfi en er við lýði í dag, var sett á fyrst til eins árs árið 2014 og var þá framlengt til þriggja ára, 2015–2018, og er að renna sitt skeið um þessar mundir.

Hér er spurt hvort það liggi fyrir að búið sé að ganga frá þáttum eða hvort búið sé að ákveða fyrirkomulagið sem tekur við. Það er ekki. Meginatriðið í vinnunni sem á eftir að fara af stað verður að færa álagninguna á veiðigjaldinu nær í tíma, tengja það betur afkomunni og tryggja með einhverjum hætti, hvernig svo sem það verður gert, að álagningin ýti ekki undir rót í byggðum landsins, að við nýtum okkur að atvinnugreinin er á mörgum stöðum vítt um land ákveðinn grunnur í búsetunni og byggðinni.

Ég fagna því sem komið hefur fram í umræðu þingmanna að þeir vilji taka málefnalega umræðu um þessi atriði í haust. Ég fagna því sérstaklega og hlakka til þeirrar umræðu. Það er ekkert að því að vera ósammála um leiðir að einhverju sameiginlegu markmiði, ekkert að því, en hin pólitíska stefnumótun, samráðið, átökin og málamiðlanir eiga að fara fram í þessum sal og hér á vettvangi þingsins.

Frumvarpið sem ég hyggst leggja fram í haust, og vinna í sumar, mun byggja á því og þeim þremur meginsjónarmiðum að við getum komið okkur saman á hausti komanda um skynsamlega gjaldtöku af sameiginlegri auðlind, við náum samkomulagi, vonandi, með einhverjum hætti um hvernig við viljum haga gjaldtökunni og hún taki þá gildi um nýtt fyrirkomulag 1. janúar 2019 og þeim reglum sem þingið kemur sér saman um við innheimtu veiðigjalds verði sömuleiðis beint á árið 2018 og metið með hvaða hætti það gjald hafi runnið til ríkissjóðs og hvort unnt sé að beita þeim reglum sem við komum okkur saman um á gjaldtöku þessa árs sem nú stendur.