148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég veit eiginlega ekki alveg í hvaða farsa ég er staddur akkúrat núna með því að vera að greiða atkvæði um þessa breytingartillögu. Hv. flutningsmaður hennar er einn af flutningsmönnum frumvarps meiri hluta atvinnuveganefndar sem var lagt hér fram og nú er ákveðið að fresta fram á haustið. Hann barðist með kjafti og klóm gegn því að eigin tillaga kæmist á dagskrá Alþingis til umræðu. Miðflokkurinn tók svo þátt í samkomulagi um þinglok. Síðan er hér lögð fram breytingartillaga sem — ég verð bara að segja eins og er — er ekki til neins annars en að slá pólitískar keilur heima í héraði. Mér finnst þessi vinnubrögð forkastanleg. Það gerðu allir ráð fyrir því varðandi það samkomulag sem hér var gert um þinglok að þessu máli, efnislega, yrði frestað fram á haustið, að ræða það, og þau veiðigjöld sem voru í gildi yrðu einfaldlega framlengd eins og tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar gengur út á.