148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa tillögu sem fulltrúi Miðflokksins er skrifaður fyrir og við styðjum að sjálfsögðu. Ég furða mig hins vegar á ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem kemur hingað upp, þenur sig og gerir sig breiðan, þykist geta haft þann rétt af þingmönnum að flytja tillögur. Ég veit ekki hvaða upplýsingar hv. þingmaður hefur en það hefur aldrei verið samið um að hægt sé að múlbinda þingmenn í þessari umræðu. Það að brigsla hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni um að hafa barist með kjafti og klóm gegn því frumvarpi sem hér um ræðir — ég held að þingmaðurinn ætti að fara á vef Alþingis og rannsaka aðeins … (Gripið fram í.)

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður er að gera grein fyrir atkvæði sínu.)

... hvernig hv. þingmaður talaði og hvernig hv. þingmaður hefur barist fyrir þessu máli. Hugsa sér að þessi orð skuli falla hérna.