148. löggjafarþing — 74. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[19:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þá niðurstöðu sem liggur fyrir sem felur í sér framlengingu á núverandi fyrirkomulagi innheimtu veiðigjalda til áramóta. Ég tek undir það sem hefur verið sagt um mikilvægi þess annars vegar að skoðað verði til frambúðar hvernig fyrirkomulag veiðigjalda á að vera ákveðið og hins vegar að tekið verði á þeim vanda sem frumvarpið, sem upphaflega kom fram í síðustu viku, var ætlað að lagfæra.

Í dag höfum við greitt atkvæði um tvær breytingartillögur sem hvor með sínum hætti eru ákveðið furðuverk. Annars vegar töldu Píratar ástæðu til að blanda hvalveiðimálum inn í þetta á einhvern hátt. Allt í lagi, þingið hefur sagt sitt um það. Hitt furðuverkið var breytingartillaga Miðflokksins (Gripið fram í.) sem á sér mjög furðulegan feril í málinu. Fyrst er það þannig að þingmaður Miðflokksins tekur þátt í að leggja fram frumvarpið, svo fella þingmenn Miðflokksins það að málið komist á dagskrá og svo eru Miðflokksmenn (Forseti hringir.) búnir að vera í samkrulli við aðra í stjórnarandstöðunni um að hindra að þetta mál hafi nokkurn framgang í þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Og svaraðu nú.