148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Velferðarnefnd hefur haft málið til meðferðar síðan í febrúar og fjallað um það í nokkru máli, eins og hv. þm. og framsögumaður málsins, Ólafur Þór Gunnarsson, nefndi í ræðu sinni rétt í þessu. Ég viðurkenni að ég hafði nokkrar áhyggjur af frumvarpinu í þeirri mynd sem það kom frá ráðherra. Mínar áhyggjur sneru að því að setja ætti í lög nýjar heimildir til að refsa neytendum tiltekinna efna og lyfja. Þær heimildir væru sambærilegar þeim sem væri að finna í lögum um ávana- og fíkniefni og því verið að setja þau tilteknu efni undir sama hatt og hefðbundin vímuefni. Ég hafði af því miklar áhyggjur að verið væri að fella nýjan hóp fólks inn í stríðið gegn fíkniefnum.

Píratar hafa ávallt lagt mikla áherslu á skaðaminnkandi úrræði. Ég er fylgjandi þeirri áherslu og tel nauðsynlegt að tryggja að í lögunum verði ekki sett ný heimild til að refsa neytendum. Minni hluti nefndarinnar lagði fram sérálit í málinu með tillögu að tiltekinni útfærslu á því hvernig hægt væri að tryggja refsileysi neytenda. Sú útfærsla hefði reynst nokkuð flókin í framkvæmd og var því einfaldari breytingartillaga lögð fram af framsögumanni nefndarinnar, sem er til þess fallin að tryggja nákvæmlega slíkt refsileysi. Ég fagna þeirri tillögu og þakka fyrir hana og mun greiða atkvæði með henni.