148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera stuttlega grein fyrir áliti meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um borgaralaun. Eins og fram kemur í álitinu fjölluðum við talsvert um málið og fengum ýmsa gesti á fund nefndarinnar. Þó að fólk hafi greint á um ágæti borgaralauna sem hugmyndar kom jafnframt í ljós að fólk lítur þá hugmynd mjög ólíkum augum. Það fer eftir því hvern er rætt við hvort fólk sér þetta sem viðbót við það tekjutryggingarkerfi sem við höfum víða í samfélaginu í dag eða eitthvað sem kemur í staðinn fyrir það, hvort þetta sé hugsað til einföldunar eða hagræðingar eða hvað það er á því kerfi sem við höfum í dag.

Fyrir vikið voru í raun allir sammála því skrefi sem lagt er til að stíga, að það eigi sér stað umræða á til þess bærum vettvangi þar sem við setjumst niður í góðum hópi og skilgreinum hvað borgaralaun eru, hvað þau geti verið og hvaða áhrif þau geti haft í íslensku samhengi. Um það vitnar ýmislegt annað en umfjöllun nefndarinnar. Við nefnum t.d. ályktun Evrópuráðsþingsins sem beinir því til aðildarríkja sinna að setja slíka athugun af stað.

Það sem við í meiri hlutanum viljum gera til að greina kosti og galla borgaralauna er ekki að setja af stað sérfræðihóp heldur að beina þessu verkefni í hendur framtíðarnefndar þingmanna sem sett verður á laggirnar vonandi sem fyrst. Ég er mjög spenntur fyrir að sjá hvað sú nefnd mun taka sér fyrir hendur.

Það er sem sagt tillaga okkar í meiri hlutanum að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að úttekt á kostum og göllum borgaralauna verði meðal verkefna framtíðarnefndarinnar. Ég tel að þetta sem næsta skref í málinu sé farsæl lending, að sú nefnd muni vinna vonandi mjög vel úr þessu og ég treysti því að þeir þingmenn sem veljast þar inn verði jafn spenntir fyrir verkefninu og ég er. Þetta er nefnd sem verður gaman að sjá takast á við verkefni framtíðarinnar.