148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er fínasta mál. Gott væri að skerpa á nokkrum atriðum fyrir framtíðina, t.d. með mælikvarða. Í ýmsum markmiðum eru ekki mælikvarðar settir fram fyrir öll atriði innan markmiðsins. Það getur verið mun hentugra, þó að það sé ekki endilega tekið fram sérstaklega í tillögunni eða greinargerð eða svoleiðis, að aðgangur að öllum mælikvarðaáföngunum sé aðgengilegur á einhvern hátt, kynntur í öðrum gögnum eða eitthvað því um líkt. Ef það er ekki of flókið þá væri um að gera að hafa það með í greinargerð, þeim mun betra.

Almennt varðandi nýsköpun kom það fram í umsögnum að það er ákveðið vandamál í lánum og styrkjum til nýsköpunar sem er að hefjast, ekki endilega til nýsköpunar sem er í gangi. Þá væri hentugt að hægt væri að búa til nýjan styrktarflokk þar sem fólk sem er að byrja í nýsköpun gæti fengið styrk, ekki bara lán.

Það er líka talað um nýsköpun í matvælaiðnaði. Þá er spurning hvort endilega þurfi að einskorða það við matvælaiðnað. Við viljum leggja áherslu á frekari og fjölbreyttari nýsköpun á landsbyggðinni á öðrum sviðum, t.d. í tækni- og hugverkafyrirtækjum, sem myndi þá hvetja til þess umhverfis sem hv. þingmenn töluðu um hér áðan.

Að lokum varðandi flugverkefnin þá er þarna ákveðið vandamál varðandi skort á eigendastefnu hjá Isavia og takmörk þess að flytja megi fjármagn á milli flugvalla innan lands. Við verðum að skoða allt flugsamgöngukerfið hér innan lands sem eitt kerfi í staðinn fyrir að geta notað stærðarskilvirkni í uppbyggingu á flugkerfinu okkar í heild.

Það er mjög góð og þörf framsetning á framtíðaráætlunum í þessari byggðastefnu. Ég hvet til þess að meira verði gert af svona. Gerum aðeins betur í þessu. Þessi áætlun er mun betur uppsett og mun betur gerð en stefna stjórnvalda í fjármálaáætlun, miklu betri og betur framsett markmið og mælikvarðar en þar. Ég segi bara: Meira svona og lögum þessa agnúa, þá erum við í góðu lagi.