148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum.

561. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum, hert skatteftirlit og skattrannsóknir, aukin upplýsingaöflun o.fl.

Nefndin fjallaði um málið og fékk sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, tollstjóra og frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Alþýðusambandi Íslands á sinn fund.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi mælt fyrir um breytingar á 55. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem eru viðbrögð við áliti ESA frá 7. apríl 2016 um að íslenskar reglur um samsköttun félaga brjóti í bága við EES-samninginn. Í öðru lagi er lögð til sú breyting á 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, að á eftir hugtakinu starfsmannaleiga komi: eða annar aðili sem leigir út vinnuafl. Í þriðja lagi bætist grein við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, um skráningu erlendra aðila sem selja þjónustu rafrænt til einstaklinga hér á landi og í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, um útreikning aðflutningsgjalda af hópbifreiðum sem fluttar eru tímabundið til landsins og njóta tollfríðinda samkvæmt greininni.

Ákvæði 1. gr. frumvarpsins er ætlað að heimila samsköttun hlutafélaga hér á landi og fastra starfsstöðva hlutafélaga sem skráð eru í aðildarríkjum EES eða EFTA eða í Færeyjum. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að þess misskilnings hafi gætt að ákvæðinu sé ætlað að heimila samsköttun hlutafélaga yfir landamæri. Til að árétta að svo sé ekki leggur ráðuneytið til að orðalagi a-liðar 1. gr. frumvarpsins verði breytt og gerir nefndin breytingartillögu þar að lútandi.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram mikil gagnrýni á að ekki væri gengið lengra í aðgerðum gegn skattundanskotum en gert er í frumvarpinu. Í nefndarálitinu er sérstaklega vitnað til ábendinga ríkisskattstjóra, sem ég ætla ekki að rekja hér frekar í ræðu minni en bendi á nefndarálitið.

Í öðrum umsögnum er tekið undir það að ekki sé gengið nægjanlega langt. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir m.a. að sambandið leggi ríka áherslu á að nálgast verði viðfangsefnið með heildstæðum hætti með það að markmiði að erlend fyrirtæki, m.a. þau sem stundi gerviverktöku, njóti ekki samkeppnisforskots gagnvart íslenskum fyrirtækjum eða ógni atvinnu og kjörum starfsmanna þeirra.

Samtök ferðaþjónustunnar leggja til að komið verði á fót samráðsvettvangi Ferðamálastofu, tollstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Vinnumálastofnunar, Samgöngustofu og lögreglu til að miðla upplýsingum og eiga samstarf um eftirlit og úrbætur vegna ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi.

Nefndin tekur undir þær raddir að með frumvarpinu sé gengið of skammt við að innleiða aðgerðir gegn skattundanskotum. Nefndin leggur þunga áherslu á að ráðuneytið, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneytið, fylgi eftir þeirri vinnu sem er hafin við næstu skref og leggi fram frumvarp á komandi haustþingi þar sem gengið verði lengra en nú er gert. Nefndin gerir ráð fyrir að þar verði tillögum ríkisskattstjóra veitt brautargengi. Þá telur nefndin vert að skoða framkomnar hugmyndir um myndun samráðsvettvangs og telur sérstaklega mikilvægt að greitt sé fyrir upplýsingaflæði milli þeirra opinberu aðila sem í hlut eiga, svo sem Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins og skatt- og tollyfirvalda.

Að framansögðu virtu og að ítrekuðum þeim tilmælum nefndarinnar að hér verði ekki látið staðar numið í baráttu gegn skattundanskotum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingartillögu sem fylgir nefndarálitinu.

Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir. Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu. Undir nefndarálitið skrifa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Smári McCarthy, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorsteinn Sæmundsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.