148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og breytingu á barnalögum sem varðar ríkisfangsleysi. Nefndarálitið er býsna ítarlegt og ég vísa bara til þess, en það er að finna á þskj. 1155. Ég ætla rétt að drepa á það helsta sem þetta mál varðar. Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Fanneyju Óskarsdóttur og Berglindi Báru Sigurjónsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Stellu Hallsdóttur frá umboðsmanni barna, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Helgu Þórisdóttur og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Ástríði Jóhannesdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Kristjönu Fenger og Áslaugu Björk Ingólfsdóttur frá Rauða krossinum og Jórunni Írisi Sindradóttur, Sigurbjörgu Rut Hoffritz, Vilborgu Sif Valdimarsdóttur og Ester Ingu Sveinsdóttur frá Útlendingastofnun. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Rauða krossinum á Íslandi, umboðsmanni barna og Útlendingastofnun.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt með hliðsjón af undirbúningi á fullgildingu tveggja samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi, annars vegar samnings frá 1954 um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og hins vegar samnings frá 1961 um að fækka ríkisfangslausum mönnum, en einnig með hliðsjón af tilmælum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um að fækka þeim sem hafa ekkert ríkisfang. Að auki eru lagðar til smávægilegar breytingar sem fyrst og fremst eru til hagræðingar við afgreiðslu mála og breytingar á barnalögum vegna tæknifrjóvgana sem gerðar eru erlendis.

Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að orðalag væri afdráttarlaust um að barn öðlaðist sjálfkrafa ríkisfang við fæðingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sérstaklega í þeim tilvikum þegar ríki heimila ekki tvöfalt ríkisfang. Nefndin tekur fram að orðalagið „öðlast“ er í samræmi við núgildandi orðalag. Þá miðar breytingin að því að jafna rétt allra barna óháð fæðingarstað og óháð því hvort foreldrar hafa gengið í hjúskap. Nefndin telur þess vegna ekki æskilegt að sækja þurfi sérstaklega um ríkisfang, enda þurfi að gera greinarmun á því hvort viðkomandi öðlist ríkisborgararétt sjálfkrafa, með tilkynningu eða með umsókn. Einnig áréttar nefndin að markmið frumvarpsins er m.a. að auðvelda þeim sem ekki hafa ríkisfang að öðlast ríkisborgararétt.

Eins og ég segi ætla ég ekki að fara yfir alla þætti þessa máls. Það er nokkuð ítarlega gerð grein fyrir þeim í nefndarálitinu sem ég vísaði til áðan og er á þskj. 1155. Ég vil þó geta þess að með frumvarpinu er lögð til breyting á barnalögum þess efnis að tæknifrjóvgun sem gerð hefur verið erlendis verði talin gild hér á landi ef Þjóðskrá Íslands samþykkir gögn þar að lútandi. Ráðherra skal þá setja nánari ákvæði um þau gögn í reglugerð. Nefndin áréttar að um er að ræða tæknifrjóvgun á eiginkonu eða sambúðarkonu sem fram fer með samþykki maka eða sambúðarmaka. Könnun Þjóðskrár Íslands lýtur m.a. að því hvort tæknifrjóvgun í viðkomandi máli hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Með hliðsjón af því áréttar nefndin að ákvæðið á ekki við um staðgöngumæðrun, enda er staðgöngumæðrun óheimil hér á landi samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, samanber lög nr. 55/1996.

Að öllu samanlögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, að orðin „áður en hann verður 18 ára“ í 2. mgr. 5. gr. falli á brott.

Undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn, þ.e. sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Víglundsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, með fyrirvara.