148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[15:01]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða frumvarp þar sem brugðist er við ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, um að færa þurfi ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar um að heimila umsækjendum frá öðrum EES-ríkjum að sækja um stuðning til Kvikmyndasjóðs Íslands um leið og því er haldið til haga að EFTA/EES-ríkjunum er áfram heimilt að styðja sérstaklega við tungumál á fámennu málsvæði eins og íslenska málsvæðið er.

Ég er á þessu máli og hef ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. Willum Þór Þórsson sagði áðan. Ég vil þó aðeins leggja áherslu á eitt sem kom fram við vinnslu málsins um samráð ráðuneytisins við þá hagsmunaaðila sem málið varðar. Í álitinu stendur, með leyfi forseta:

„Nefndin beinir því þar af leiðandi til ráðuneytisins að öflugra samráð verði haft við hagsmunaaðila í framtíðinni þegar mál eru til vinnslu innan þess. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að í þeirri stefnumótunarvinnu sem fram undan er við mótun kvikmyndastefnu fari fram heildarendurskoðun kvikmyndalaga, nr. 137/2001, og gætt sé að fullu samráði við hagsmunaaðila við þá heildarendurskoðun.“

Ég vil einungis árétta þetta.