148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[15:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar til að fagna því sérstaklega að nefndin náði góðri samstöðu um breytingar á frumvarpinu sem hér hafa verið kynntar ítarlega og ég ætla ekki að rekja. Ég vil sérstaklega nefna að ein breytingartillagan felur í sér að Félag íslenskra leikara eigi nú rétt á að tilnefna fulltrúa í kvikmyndaráð. Það er mjög mikilvæg breyting. Þegar kvikmyndir verða til eiga þær það yfirleitt sammerkt að í þeim er fjöldi leikara, mismikill þó, en þeir eru andlit myndarinnar og túlka, ef svo má segja, viðfangsefnið á tjaldinu sem við horfum á. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þessa að þeir, þessi fjölmenna stétt sem kemur að kvikmyndunum, fái meira um það að segja hvernig þessum málum er háttað. Þess vegna vildi ég aðeins koma hingað upp til að fagna því sérstaklega að fulltrúi Félags íslenskra leikara er kominn í hóp þeirra sem skipa kvikmyndaráð.