148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að fagna því sérstaklega að þessi mikilvæga tillaga sé komin til seinni umræðu í þinginu. Ef saga jafnréttisbaráttu hér á landi kennir okkur eitthvað þá er það það að breytingar gerast ekki af sjálfu sér. Lykiláfangar í jafnréttisbaráttu í gegnum árin og áratugina hafa náðst með samstilltu átaki og harðvítugri baráttu, fyrst og fremst kvenna í stjórnmálum og eftir atvikum á vinnumarkaði. Þannig höfum við stigið mikilvæg skref eins og að innleiða fæðingarorlof og með jöfnum rétti beggja foreldra til töku slíks orlofs, til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ekki má gleyma stórstígum framförum í dagvistunarúrræðum sem hafa skipt gríðarlega miklu máli fyrir jafnt aðgengi kynjanna að vinnumarkaði. Við höfum samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja til að breyta því mikla ójafnvægi sem verið hefur á vinnumarkaði þegar kemur að æðstu stjórnunarstöðum og samsetningu stjórna. Síðast en ekki síst samþykkti Alþingi fyrir ári lög um jafnlaunavottun, sem munu í mínum huga marka tímamót í baráttunni fyrir jafnrétti í launasetningu á vinnumarkaði.

Það er hins vegar alveg ljóst þegar við horfum á launagreiningar, sem ítrekað hafa verið unnar á vinnumarkaði, að konur eru að jafnaði með 15–20% lægri laun en karlar. Það er gegnumgangandi, endurtekinn, mældur launamunur á vinnumarkaði. Það er ágætt að hafa í huga að sá launamunur er ekki einkamál fyrirtækja í landinu. Þetta er ekki spurning um aðför að frjálsri launasetningu. Kerfisbundin mismunun í launum er bönnuð samkvæmt lögum, bæði samkvæmt lögum um jafna stöðu kynjanna og jafnlaunavottun frá síðasta ári. Og kostnaðurinn lendir á samfélaginu. Við skulum ekki gleyma því að konur búa að jafnaði við þriðjungi lakari eftirlaunarétt en karlar einmitt vegna kerfisbundinnar mismununar á vinnumarkaði.

Þegar við tölum um 15–20% launamun kynjanna er ein stærsta breytan kynskiptur vinnumarkaður, sú staðreynd að fjölmennar, vel menntaðar kvennastéttir eru kerfisbundið vanmetnar í launum á vinnumarkaði. Það stendur upp úr í hverri einustu skýrslu sem skrifuð hefur verið um þessi mál. Þessari þingsályktunartillögu er einmitt ætlað að ná utan um þetta vandamál af því að það er alveg ljóst að jafn mikilvæg og lögin um jafnlaunavottun eru taka þau ekki utan um launamun starfsgreina. Þeim er fyrst og fremst ætlað að leysa launamun innan einstakra fyrirtækja.

Ég er ánægður með að málið er komið fram. Ég styð þær breytingar sem minni hluti nefndarinnar leggur til til að skerpa á málinu og freista þess að ná víðtækari sátt um það. Ég verð að sama skapi að segja að breytingartillaga meiri hlutans veldur mér miklum vonbrigðum. Ef við segjum að um aðgerðadrifna þingsályktunartillögu sé að ræða, þ.e. þingsályktunartillögu sem felur stjórnvöldum að grípa til raunverulegra aðgerða, viðræðna um það hvernig taka skuli á vandanum, þá felur breytingartillaga meiri hlutans í sér að gera ekki neitt. Hún bætir í engu við það sem þegar er gert á vinnumarkaði. Nú þegar eru kerfisbundnar, ítarlegar greiningar á kynbundnum launamun framkvæmdar, m.a. af Hagstofunni. Það þarf ekki að taka sérstaklega fram í þingsályktunartillögu að ráðast þurfi í slíka greiningu, hún er gerð. Þegar horft er til starfsmats Reykjavíkurborgar er það einmitt annað orð yfir jafnlaunavottun og við höfum þegar lögfest hana. Það er þegar verið að ná utan um þann þátt. Tveir meginþættir breytingartillögunnar fela því ekki í sér neina nýja viðbót við það sem þegar er gert á vinnumarkaði og þjónar því í sjálfu sér engum tilgangi að samþykkja hana. Það er líka athyglisvert að í þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætta stöðu kvennastétta séu orðin „þjóðarsátt“ og „kvennastéttir“ tekin út úr þingsályktunartillögunni. Það sýnir kannski hvernig kerfisbundið er reynt að vatna tillöguna út þannig að eftir sitji nákvæmlega ekki neitt.

Það er ágætt að hafa í huga að sá vinnustaður sem hvað mest hefur látið til sín taka í þeim málum, Reykjavíkurborg, (Forseti hringir.) þar sem kerfisbundið hefur verið unnið að því að útrýma kynbundnum launamun í aldarfjórðung með góðum árangri, styður (Forseti hringir.) tillöguna eins og hún var upprunalega lögð fyrir og þar af leiðandi þær breytingartillögur, vænti ég, sem minni hluti nefndarinnar gerir tillögu um. Það veldur mér vonbrigðum ef (Forseti hringir.) flokkur eins og Vinstri græn, sem í orði lýsa sig eindregið fylgjandi því (Forseti hringir.) að stuðla að auknu launajafnrétti í landinu, hyggjast ekki (Forseti hringir.) styðja þetta góða mál.