148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Við ræðum þá ágætistillögu sem hér hefur verið lögð fram. Við fjölluðum töluvert um tillöguna í allsherjar- og menntamálanefnd og fengum þó nokkuð marga gesti ásamt umsögnum. Mig langar aðeins að velta upp því sem fór í gegnum huga minn áðan þegar ég hlustaði á ræður hér á undan. Það er vissulega gott að jafnlaunastaðallinn sé kominn til sögunnar. Það er þó þannig með jafnlaunastaðalinn að hann jafnar bara laun innan ákveðinna stofnana og innan ákveðinna fyrirtækja. Hann fer ekki á milli stofnana eða á milli fyrirtækja. Hann mun kannski ekki verða til þess að hækka laun eða leiðrétta laun kvennastétta. Þess vegna er mjög mikilvægt að við komum okkur saman um að stíga þau skref sem stíga þarf í framhaldinu.

Það er alveg rétt að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og það er sjálfsagt þar sem vandinn grundvallast. Það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir og við verðum með öllum ráðum að reyna að bregðast við því. En þá er það spurning hvað beri að gera fyrst og á hverju skuli enda. Ímyndum okkar að leita þurfi allra leiða, að fá karla til að sækja í þessi hefðbundnu kvennastörf og öfugt. Því hefur líka lengi verið haldið fram að ekki sé hægt að leiðrétta kjör kvenna vegna þess að þær stéttir þar sem konur eru í meiri hluta séu svo fjölmennar. Á móti er hægt að segja að það eigi til dæmis ekki við um ljósmæður. Það er aldeilis ekki mjög fjölmenn stétt og síðustu fréttir herma að þar sé allt í hnút.

Minnihlutaálitið sem ég skrifaði undir finnst mér meira afgerandi en meirihlutaálitið sem fór frá nefndinni. Hér hefur verið sagt að meirihlutaálitið sé útþynnt. Það getur nefnilega gerst þannig að þegar verið er að sameinast um álit verða þau svolítið útþynnt þannig að allir eiga sína setningu í því. Gjarnan eru notuð orð eins og „tilmæli“, „mælst er til“, „bendum á“ o.s.frv.

Mér finnst mjög gáfulegt að við samþykkjum þá breytingartillögu sem minni hlutinn leggur fram, að skýrar sé kveðið á um að ráðast þurfi í aðgerðir og það sé gert í samvinnu við samtök verkalýðshreyfingarinnar o.s.frv.

Einnig kom fram að við fengum umsögn frá Reykjavíkurborg og gesti sem töluðu um að gott væri að hafa starfsgetumat. Starfsgetumatið er ágætt í sjálfu sér en ég vil ítreka að það mælir ekki mun á milli stofnana eða fyrirtækja. Vissulega byggir jafnlaunastaðallinn á því en það er ekki nóg. Það er bara alls ekki nóg. Þess vegna er mikilvægt að þessi tillaga komi fram og að við leggjum áherslu á minnihlutaálitið þar sem sagt er beint að við verðum að halda áfram, að við verðum að kortleggja vandann og stíga svo þau skref sem þarf til að leiðrétta kjör kvennastétta þótt fjölmennar séu.