148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega ánægjulegt að við skulum vera að kalla eftir þjóðarsátt um jöfn laun kvenna og karla. Að kynbundinn launamunur skuli hins vegar enn vera í umræðunni árið 2018 hlýtur að sæta furðu. Auðvitað verðum við að horfa til þess að þetta er byrjunin, upphafið er hér. Við erum að tala um málið. Við ætlum að fylgja því eftir. Einhvers staðar er upphafspunkturinn. Ég segi: Hálfnað er verk þá hafið er. Ég segi líka: Konur eru líka menn.

Ég ítreka að það sætir furðu, virðulegi forseti, að hér skulum við standa árið 2018 og berjast fyrir jöfnum launum kvenna og karla og það jafnvel fyrir sömu vinnu. En ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra stígi fram og standi við það sem hún hefur hvað ötullegast barist fyrir, jafnrétti, að útrýma launamun kynjanna. Hér er tækifærið fyrir Vinstri græna. Hér er tækifærið fyrir forsætisráðherra að fylgja eftir hugsjóninni um jafnrétti. Ég vil ítreka að við eigum að uppskera það sama, við eigum að uppskera sömu laun fyrir sömu vinnu. Það á ekki að muna 15–20% vegna þess að konur eru líka menn.