148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu á frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Berglindi Báru Sigurjónsdóttur og Svanhildi Þorbjörnsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Guðjón Bragason og Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrafnhildi Arnkelsdóttur og Ólaf Hjálmarsson frá Hagstofu Íslands, Birgittu Arngrímsdóttur og Elínu Ölmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra, Ástríði Jóhannesdóttur og Indriða Ómarsson frá Þjóðskrá Íslands, Guðnýju S. Bjarnadóttur frá Félagi um foreldrajafnrétti, Rögnu Haraldsdóttur og Halldóru Ólafsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins og Sigurbjörgu Rut Hoffritz frá Útlendingastofnun.

Umsagnir bárust frá Félagi um foreldrajafnrétti, Fljótsdalshéraði, Hagstofu Íslands, Ísafjarðarbæ, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sigurlaugu Knudsen Stefánsdóttur, Tryggingastofnun ríkisins og Útlendingastofnun.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, og lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952. Tilefni þess er fyrst og fremst þingsályktun Alþingis frá 7. september 2016 og breyttir samfélagshættir. Markmið frumvarpsins er m.a. að tryggja að löggjöf um lögheimili og aðsetur sé í takt við þarfir og samfélagshætti nútímans og sé skýr og auðskiljanleg. Nauðsynlegt er talið að samræma skráningu landsmanna, gera hana miðlæga, stuðla að því að hún verði sem réttust hverju sinni og sé að mestu leyti rafræn. Tilgangur frumvarpsins er auk þess að stuðla að betra verklagi við skráningu og að skýrar reglur gildi um heimild til afturvirkni skráninga.

Nefndarálitið er býsna ítarlegt og ég ætla ekki að fara yfir það allt hér heldur rétt að fjalla um mesta nýmælið í frumvarpinu sem snýr að lögheimili hjóna og skráða sambúð.

Í frumvarpinu er að finna nýmæli um að hjón mega eiga hvort sitt lögheimilið kjósi þau það. Við meðferð málsins fyrir nefndinni var bent á hættu á því að slík heimild gæti leitt til þess að tekjuháir einstaklingar gætu skráð lögheimili sitt í sveitarfélögum sem hafa lágt álagningarhlutfall útsvars án þess að hafa þar raunverulega búsetu. Fram kom tillaga um að takmarka slíka heimild við tilteknar aðstæður. Nefndin tekur undir að sú hætta sé vissulega fyrir hendi en áréttar að heimild hjóna til að eiga hvort sitt lögheimilið sé einkum vegna þess að hjón séu ekki alltaf í stöðu til eða kjósi að eiga sama lögheimili t.d. vegna atvinnu. Nefndin áréttar að slík heimild geti ekki falið í sér skattalegt hagræði fyrir hjón.

Ítarlega er fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla. Þetta fjallar líka um aðsetur erlendis, hvernig staðfestingu á aðsetri skuli háttað, skráningu á aðsetri innan lands, dulið lögheimili, lögheimili barna sem geta líka, samkvæmt þessu, átt lögheimili hjá báðum foreldrum ef svo ber undir, ef foreldrar búa ekki saman. Þetta er því býsna viðamikil breyting á lögum og ég vísa einfaldlega til þess að þetta er að finna á þskj. 1160.

Nefndin gerði fimm breytingar á lögunum sem er að finna síðast í nefndarálitinu. Það ber að taka fram að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru þar, á bls. 7. Hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara en hún telur að ráðuneytið eigi að leggja fram tillögur varðandi skráningu aðseturs í atvinnuhúsnæði sem fyrst á næsta þingi. Með þeim fyrirvörum rita undir nefndarálitið sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrrgreindum fyrirvara, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Teitur Björn Einarsson, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.