148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis. Álitið er frá umhverfis- og samgöngunefnd. Frumvarpið sjálft liggur fyrir á þskj. 344 og nefndarálitið með breytingartillögu á þskj. 1161.

Þingmálið hefur almennt gengið undir heitinu „athafnir og athafnaleysi“ og lýtur að sérstakri kæruheimild vegna slíks. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín allmarga gesti og farið yfir þær umsagnir sem bárust.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði fyrir þá sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta og umhverfisverndarsamtök, eins og þau eru skilgreind í lögum um umhverfis- og auðlindamál, að kæra athafnir og athafnaleysi jafnóðum í tengslum við þátttökurétt almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samfara því er einnig lagt til að gerð verði breyting á kæruheimild laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til að samræma hana heimildum annarra laga til að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að með 3. gr. frumvarpsins um lögfestingu kæruheimildar til að kæra athafnir og athafnaleysi væri gengið mun lengra en efni standa til út frá rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016, en í álitinu væri einungis fjallað um að kæruréttur væri ekki tryggður þegar stjórnvald tæki ekki ákvörðun sem því væri skylt að taka. Hvergi væri verið að innleiða kærurétt athafna og athafnaleysis með þeim hætti sem lagt væri til í frumvarpinu. Nefndin áréttar að mikilvægt er að tryggja þátttökurétt almennings við ferli mats á umhverfisáhrifum. Ákvæði Árósasamningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð mælir fyrir um að þrjú tilvik skuli vera kæranleg, sem eru ákvörðun, aðgerð og aðgerðaleysi. Þar með er ekki nægilegt að eingöngu sé til staðar heimild til kæru ákvarðana.

Athugasemdir voru gerðar við ákvæði 6. tölulið b-liðar 3. gr. frumvarpsins sem felur í sér eins konar safnlið, þ.e. mælt er fyrir um að tilvik sambærileg þeim sem rakin eru í 1.–5. tölulið og gætu þar með sætt kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bent var á að rökstutt álit ESA gæfi ekki tilefni til lögfestingar slíks ákvæðis. Þá byði orðalag þess upp á túlkunarágreining um inntak kæruheimildarinnar en sjónarmiðum um skýrleika bæri að gefa sérstakan gaum við lagasetningu til að tryggja að réttaróvissa skapaðist ekki. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að 6. töluliður b-liðar 3. gr. frumvarpsins falli brott.

Á fundum nefndarinnar komu fram verulegar áhyggjur af málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála en hann hefur verið umfram lögbundinn málsmeðferðartíma í fjölda ára. Dæmi eru um ólokin mál allt frá árinu 2015 og stefnir í að málsmeðferðartími muni lengjast á árinu. Ljóst er að kærur og tafir á úrlausn þeirra geta leitt til verulegs tjóns fyrir framkvæmdaraðila. Nefndin telur brýnt að unnið verði markvisst að því að stytta málsmeðferðartíma fyrir nefndinni, m.a. með fjölgun stöðugilda en mikilvægt er að tryggt sé fjármagn til þess. Þá leggur nefndin til að veittar verði auknar heimildir til flýtimeðferðar fyrir nefndinni, þ.e. mál sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni aðila, hvort sem er kærða eða kæranda, skuli sæta flýtimeðferð. Leggur nefndin til breytingu á 6. mgr. 4. gr. laganna í því skyni. Raunar ræddu mjög margir gestanna akkúrat þetta mál, sem er ekki nýmæli í lögunum heldur kannski það sem staðið hefur í vegi fyrir skilvirkni.

Nefndin leggur mikla áherslu á að boðuð heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum fari fram sem allra fyrst. Töluverð reynsla er komin á lögin á þeim 18 árum sem liðin eru frá setningu þeirra og þykja ferlin að ýmsu leyti þung í vöfum auk þess sem bent hefur verið á að þau gangi að einhverju leyti lengra en gert er ráð fyrir í tilskipunum ESB. Þá séu lögin ólík löggjöf þeirra landa sem við berum okkur saman við og um margt flóknari. Nefndin telur mikilvægt að í vinnu við endurskoðunina verði þess gætt að hafa samráð við hagsmunaaðila og leitað verði til færustu sérfræðinga háskólasamfélagsins á sviði stjórnsýsluréttar og umhverfis- og auðlindaréttar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum, sem eru þær tvær breytingartillögur sem ég hef gert grein fyrir.

Undir álitið rita hv. þingmenn Bergþór Ólason formaður, Jón Gunnarsson, sem var framsögumaður í vinnu nefndarinnar, Líneik Anna Sævarsdóttir, sem tók að sér framsögn í dag í forföllum framsögumanns, Albertína Friðbjört Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.