148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[16:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Frumvarp þetta má að stofni til kalla EES-innleiðingu. Það var umdeilt í upphafi, m.a. vegna þess að talið var að þarna væri verið að ganga lengra en Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefði úrskurðað um. En nú hefur frumvarpið tekið breytingum til sátta í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, það er ánægjulegt.

Frumvarpið snýst um möguleika almennings og málsaðila til að kæra svokallaðar athafnir eða athafnaleysi — það geta verið tilkynningar eða auglýsingar, skortur á auglýsingum og annað slíkt — á stjórnvaldsstigi svo að það sé á hreinu. Það gerist þá þegar verið er að undirbúa og leyfa alls konar framkvæmdir. Þetta eru þá svokallaðar matsskyldar framkvæmdir og ljóst er að þessi ákvæði hefur vantað í íslensk lög og þarna eru þau þá komin. Það má segja sem svo að megininnihald frumvarpsins, eða grunnurinn sjálfur, sé veruleg réttarbót.

Þá má í leiðinni minna á hve nauðsynlegt það er að stimpla inn í aukinn almannarétt í umhverfismálum nákvæmlega þennan rétt, einkum ef unnt er að færa athugasemdir og breytingar framar í allt ferlið sem þarna er í gangi; ferlið frá hönnun tiltekinna framkvæmda til framkvæmdanna sjálfra og til framkvæmdaloka í raun og veru. Lögin ættu einmitt að leiða til þess að framkvæmdaraðilar, stofnanir, ríkisstofnanir eða sveitarfélög, og þá leyfisveitendur, sem yfirleitt eru sveitarfélög, vandi sig betur. Það er einmitt tilgangurinn með þessu, meðal annars og það er vel.

Þá er brýnt að ítreka að samhliða þessu á að auka bæði fé og mannafla, afl, við getum bara kallað það sem svo, til svokallaðrar úrskurðarnefndar kærumála. Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns hér á undan hefur skort á skilvirkni og aðallega getu þeirrar nefndar til að ljúka málum sínum. Þetta er þá gert samhliða framlagningu frumvarpsins og það er líka vel.

Sú gagnrýni að bíða hefði átt með frumvarpið og í stað þess endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða áætlana er skiljanleg en óþörf vegna þess að ríkisstjórnin ætlar sér að gera hvort tveggja í einu, fá þetta frumvarp framlagt og undirbúa endurskoðun þess mikla lagabálks um mat á umhverfisáhrifum. Sá undirbúningur er þegar hafinn. Ég fagna afgreiðslu frumvarpsins og því að sú endurskoðun er hafin, þ.e. endurskoðun á heildarlögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.