148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[16:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að árétta nokkuð sem komið hefur fram hjá kollegum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd og varðar þetta ágæta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, mál sem varðar athafnir og athafnaleysi. Fram kom í umsögnum nokkurra ef ekki vel flestra aðila, mismunandi harðorð, ákveðin gagnrýni á að hér væri um að ræða ranga lagatæknilega nálgun, þ.e. að með frumvarpinu væri gengið töluvert lengra en þyrfti varðandi innleiðinguna og efni stæðu til út frá þessu rökstudda áliti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Komið hefur fram í máli fyrri ræðumanna um málið að lagðar voru til breytingar sem vonandi ganga að einhverju leyti til móts við þá gagnrýni sem kom fram, þó að ég ímyndi mér að einhverjir hafi viljað ganga enn lengra. Þetta er sáttin sem náðist í nefndinni og mig langar aðeins að hnykkja á því sem kemur fram í nefndarálitinu undir lokin, að umhverfis- og samgöngunefnd leggur mjög mikla áherslu á að boðuð heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum fari fram sem allra fyrst. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í apríl 2016 til að endurskoða lögin og síðan hefur töluvert vatn runnið til sjávar, bæði í stjórnmálunum með tíðum ráðherraskiptum en ekki síður í ákveðnum framkvæmdum sem þessi lög varða.

Það er gríðarlega mikilvægt að við stöndum við þau fyrirheit að fara í þá vinnu sem fyrst og með þeim hagsmunaaðilum sem um ræðir og skoðum þetta heildstætt. Ef það er eitthvað sem ég óttast er það að þessi löggjöf, fari þetta í gegn, verði til þess að menn andi léttar um sinn og láti einhver önnur verkefni ofar á forgangslistann en að fara í þessa heildarendurskoðun.

Ég vildi bara árétta að ég tel mjög mikilvægt, nefndin er mjög skýr með það álit sitt, að við förum í heildarendurskoðun, náum sátt um þessi mál og höfum þá það til hliðsjónar að vera ekki að ganga lengra en efni standa til og jafnframt að fá hagsmunaaðila að borðum til að vinna þetta eins mikið í sátt og samlyndi og hægt er og tryggja þannig rétt almennings til að hafa aðkomu að borðinu.