148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil koma upp og þakka góða samvinnu í nefndinni um þetta mikilvæga og stóra mál, sem það svo sannarlega er. Flutningskerfi raforku er klárlega eitt af stærstu málefnum þingsins þessi misserin. Þetta er grundvallarmál fyrir uppbyggingu lands og þjóðar en undanfarin ár og áratugi, a.m.k. síðustu 10–15 árin, hafa viss svæði búið við mjög slæmt ástand í þeim málum. Þetta er sögulegt plagg, eins og hefur komið fram, og við vonum að við sjáum fram úr því næstu árin að byggja upp góða stefnumarkandi áætlun sem verður síðan notuð í kerfisáætlun og annars staðar til að byggja upp kerfið.

Fyrir rúmri viku var verið að vígja ný tengivirki við Þeistareyki og Bakka, nýja línu, Þeistareykjalínu, sem er dæmi um hversu hratt og vel þetta hefur þróast hjá okkur undanfarin ár. Menn eru að fara að byggja upp kerfið og umhverfislega þætti og taka inn hluti eins og með sjónmengun og annað þar sem unnið var í sambandi við heimafólk á svæðinu. Það er nokkuð sem er hægt að vinna með.

Síðan vonast maður til að í haust verði hafist handa við að reisa Kröflulínu 3 frá Kröfluvirkjun og í Fljótsdalsvirkjun og að á næsta ári hefjist vinna við Hólasandslínu frá Rangárvöllum að Kröflu. Vonandi erum við að fara að taka stór skref á því sviði. Ég ætlaði rétt að koma upp og minnast á þetta. Það hefur farið fram góð vinna í atvinnuveganefnd í málinu og einnig mjög spennandi. Ég held að allir séu mjög spenntir fyrir verkefninu. Við sitjum mörg í nefndinni um langtímaorkustefnu fyrir Ísland þannig að við erum að vinna þetta þar sem málefni tengjast mjög sterkt á milli. Ég fagna því að við séum vonandi að klára þetta mál í dag og afgreiða frá þinginu sem verður þá í fyrsta skiptið sem slíkt stefnumarkandi plagg er samþykkt héðan.